Áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:55:13 (746)

1997-10-22 13:55:13# 122. lþ. 14.2 fundur 47. mál: #A áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, vissulega liggja allar leiðir úr höfuðborginni í gegnum Reykjanes í dag og þannig verður það líka með leiðina að gangamunnanum sem Spölur er að vinna.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir að það hafa verið mjög fagleg vinnubrögð hjá þingmannahópnum okkar varðandi Reykjanesbrautina. Við breyttum um vinnulag í lok síðasta kjörtímabils og létum vinna úttektir, samanburð á kostnaði við ýmsar framkvæmdir og forgangsröðun verkefna þar til Reykjanesbraut yrði tvöfölduð og það er mín athugasemd. Þingmannahópurinn hefur rætt það að til tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar verður að koma til sérstakt fjármagn ef það mál á einhvern tíma að komast í höfn vegna þess að miðað við verkefnin sem hjá okkur liggja og miðað við verðið á því að tvöfalda Reykjanesbrautina, þá verður það verkefni ekki unnið fyrir hefðbundið vegafé. Og það er mikilvægt að þegar brautin er rædd hér þá sé þessu komið á framfæri gegnum forseta til ráðherra.