Áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 13:57:42 (748)

1997-10-22 13:57:42# 122. lþ. 14.2 fundur 47. mál: #A áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:57]

Siv Friðleifsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem fara hér fram um þetta mikla mál og ítreka það að þingmannahópurinn stóð saman um þetta framfaraskref sem var tekið. Það var nokkuð skondið fyrir mig sem nýjan þingmann að upplifa hvernig þetta var unnið vegna þess að Vegagerðin var ósammála þessari aðgerð, vildi gera annað. Vegagerðin vildi skoða allt aðra hluti en við stóðum þétt saman um það að brautin skyldi lýst. Ég vil ítreka það sérstaklega að við stóðum saman, vegna þess að einn þingmaður úr okkar hópi hefur gefið það í skyn í fjölmiðlum að hann hafi sjálfur staðið að þessari aðgerð, látið mynda sig í blöðum umvefjandi ljósastaur á Reykjanesbrautinni, enda er sá þingmaður kallaður í dag í okkar hópi ljósálfurinn. En þetta þarf að komast á framfæri hér. (SJS: Hann á reyndar staurinn.)

Mig langar líka að segja hér að við stóðum saman að þáltill. um að tvöfalda Reykjanesbrautina, þar stóðum við líka saman. Og ég á von á að það hlaupi ekki upp margir þingmenn og eigni sér það þegar það er komið í höfn. (Forseti hringir.) En það er alveg ljóst að það er vaxandi umferð um Reykjanesbrautina og það er mín trú að slysum muni fækka vegna þessarar lýsingar. Hún er afar góð.