Áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:02:22 (751)

1997-10-22 14:02:22# 122. lþ. 14.2 fundur 47. mál: #A áhrif lýsingar við Reykjanesbraut á slysatíðni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:02]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áður út af ummælum hv. fyrirspyrjanda að ekki er hægt að draga neinar almennar ályktanir af þeirri reynslu sem komin er. Augljóst er að það er nokkuð misjafnt frá ári til árs hversu mörg óhöppin verða og hversu mörg slysin. Þannig varð fjöldi óhappa með meiðslum á fólki á árunum 1994--1995 t.d. fjögur, 1995--1996 voru þau sex, en sjö þetta síðasta ár. Mér finnst ómögulegt að draga þá ályktun af því að það sé vegna lýsingarinnar sem slíkum slysum hafi fjölgað. Ég held því að við skulum fara gætilega í slíkar almennar ályktanir. Á hinn bóginn liggur ljóst fyrir, eins og þingmenn hafa sagt, að ef hægt er að tvöfalda Reykjanesbraut þá eykur það öryggi í umferðinni og má segja hið sama um ýmsa aðra þjóðvegi, bæði austur yfir fjall og svo um Kjalarnesið eftir að göngin eru komin. Hið sama á einnig við, eins og ég sagði áður, ef brýr eru breikkaðar þar sem þær eru einbreiðar.

Þessi umræða staðfestir raunar að kjördæmaþingmenn eru áfram um að þeirra kjósendur viti að þeir gefi samgrh. aðhald og telji að hann standi sig ekki alveg nógu vel. (ÖS: Er ráðherrann sammála?) Ráðherra er nú ekki sammála því. Sjálfum finnst honum hann standa sig bara býsna vel í þessu öllu saman.