Málefni skipasmíðaiðnaðarins

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:04:38 (752)

1997-10-22 14:04:38# 122. lþ. 14.4 fundur 169. mál: #A málefni skipasmíðaiðnaðarins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. iðnrh. tvær spurningar sem tengjast stöðu skipasmíðaiðnaðarins um þessar mundir og möguleikum hans á því að styrkja stöðu sína, m.a. með því að annast eða fá a.m.k. hlutdeild í stórum verkefnum þar sem opinberir aðilar eru að fjárfesta í skipum. Er þá einkum og sér í lagi verið að vísa til ákvörðunar sem tekin hefur verði um smíði nýs hafrannsóknaskips.

Það er svo að skipasmíðaiðnaðurinn hefur verið að rétta heldur úr kútnum eftir mjög langt samdráttar- og niðurlægingarskeið þar sem stappaði nærri að sá iðnaður legðist af í landinu nema lítils háttar viðhaldsiðnaður. En á síðustu árum hefur heldur batnað ástandið og aukist að viðhaldsverkefni og stærri verkefni og jafnvel minni smíðaverkefni af ýmsum toga væru á nýjan leik unnin af íslenskum skipasmiðastöðvum. Margar þeirra hafa getað bætt við sig nokkuð mannskap og er nú jafnvel svo komið að það vantar sérhæft starfsfólk til starfa.

Skipaiðnaðurinn og Samtök iðnaðarins hafa sett sér það markmið að endurheimta fyrri styrk skipasmíðaiðnaðarins um aldamót þannig að þá standi hann svipað eða ekki lakar en hann gerði þegar best lét. Það er alveg ljóst að til þess að þetta megi takast þurfa nýsmíðar eða a.m.k. umsvif sem tengjast endurnýjun skipastólsins að koma til sögunnar. Þessu markmiði verður ekki náð með því einu að botnskrapa og mála, þó það sé góðra gjalda vert í sjálfu sér. Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins og skipasmíðaiðnaðurinn bundist samtökum um að reyna að ná til sín að einhverju leyti þeim verkefnum sem tengjast t.d. byggingu nýs hafrannsóknaskips. Það best ég veit hefur ríkt um þetta mjög góð samstaða milli fyrirtækja í greininni. Þau hafa sameiginlega og í gegnum sín samtök reynt að fá áheyrn hjá stjórnvöldum, iðnrn. og sjútvrn., um að annast þetta verkefni. Á það hefur verið bent af hálfu forsvarsmanna skipasmíðaiðnaðarins að víða erlendis er það tíðkað þegar um sérstök verkefni af þessum toga er að ræða að setja þau upp sem þróunarverkefni og þannig má komast hjá eða þarf ekki að lúta að öllu leyti t.d. skilmálum um útboð slíkra verka, alútboð eða önnur slík útboð. Þarna mætti skipta verkinu niður og gera það að samstarfsverkefni þessara fyrirtækja.

Í tengslum við þetta óskuðu Samtök iðnaðarins eftir því að fá að eiga aðild að undirbúningsnefnd eða smíðanefnd stjórnvalda en það best ég veit hefur ekki verið orðið við þeirri ósk þó því hafi verið lofað. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh.:

1. Hvað hefur verið aðhafst af hálfu iðnaðarráðuneytis til að gera innlendum skipasmíðastöðvum og tengdum iðnfyrirtækjum kleift að annast að einhverju eða öllu leyti smíði nýs hafrannsóknaskips, framleiðslu eða niðursetningu búnaðar í það eða annað tengt því verkefni?

2. Til hvaða ráðstafana, ef einhverra, hyggst iðnaðarráðuneytið grípa til stuðnings innlendum skipasmíðaiðnaði í kjölfar frétta af tillögum um áframhaldandi ríkisstyrki til skipasmíða innan Evrópusambandsins og e.t.v. víðar?