Málefni skipasmíðaiðnaðarins

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:08:09 (753)

1997-10-22 14:08:09# 122. lþ. 14.4 fundur 169. mál: #A málefni skipasmíðaiðnaðarins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 169 spyr hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um málefni skipasmíðaiðnaðarins og smíði nýs hafrannsóknaskips. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo:

Hvað hefur verið aðhafst af hálfu iðnaðarráðuneytis til að gera innlendum skipasmíðastöðvum og tengdum iðnfyrirtækjum kleift að annast að einhverju eða öllu leyti smíði nýs hafrannsóknaskips, framleiðslu eða niðursetningu búnaðar í það eða annað tengt því verkefni?

Á undanförnum missirum og árum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða af hálfu ráðuneytisins til að bæta samkeppnisstöðu innlends skipasmíðaiðnaðar. Má þar m.a. nefna úttekt innlendra og erlendra ráðgjafarfyrirtækja fyrir nokkrum árum á samkeppnisstöðu greinarinnar og hagræðingar- og þróunarverkefnum í kjölfarið: Jöfnunarstyrkjum í skipasmíðaiðnaði á árinu 1995, vöruþróunarverkefni í skipasmíðaiðnaði árið 1994 og 1995 og vöruþróunarverkefni í mjöl- og málmiðnaði sem stóð frá 1995 til 1997. Þessi þróunarverkefni hafa verið almenn og miðað að aukinni samkeppnishæfni greinarinnar. Á sama tíma hafa almenn starfsskilyrði atvinnulífsins farið batnandi með stöðugleika í efnahagsmálum, lægra og eðlilegra raungengi ásamt auknum hagvexti. Þessu til viðbótar hafa komið til málmiðnaðarverkefni í tengslum við stóriðjuframkvæmdir sem hafa komið fyrirtækjum í skipasmíðaiðnaði til góða beint eða óbeint.

Allt þetta hefur leitt til bættrar verkefnastöðu og afkoma í skipasmíðaiðanði hefur batnað samhliða fjölgun starfa í greininni. Almennt er því verkefnastaða og afkoma greinarinnar nokkuð góð. Allar áðurnefndar aðgerðir samhliða batnandi efnahagsástandi hafa gert það að verkum að innlend skipasmíðafyrirtæki eru nú samkeppnishæfari en áður og því betur í stakk búinn til að sinna smærri og stærri verkefnum í viðgerðum og skipasmíði, svo sem smíði hafrannsóknaskips. Ráðuneytið hefur einnig reynt að stuðla að því eins og frekast er kostur að unnt verði að smíða hafrannsóknaskipið hér á landi, innan þess ramma þó sem hægt er að teknu tilliti til EES-reglna á þessu sviði. Í þessu sambandi verður m.a. að hafa hliðsjón af EES-reglum, útboðum verkefna á vegum ríkisins, reglum um ríkisstyrki til skipasmíða og reglum um rannsóknar- og þróunarverkefni. Þess ber einnig að geta að undirbúningur að smíði hafrannsóknaskips hefur verið í höndum sérstakrar smíðanefndar undir forsæti sjútvrn. Í þeim tilgangi að tryggja sem mest gæði þessa verkefnis með hliðsjón af innlendri þekkingu og reynslu hefur ráðuneytið átt fundi með þeim sem að þessu máli koma í iðnaði sem og í sjútvrn. Þannig hefur verið stuðlað að því á vegum iðnrn. að innlend fyrirtæki í skipaiðnaði fái aðgang á grunni jafnræðis að undirbúningi og þróun þessa verkefnis eins og hægt er innan reglna EES.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Til hvaða ráðstafana, ef einhverra, hyggst iðnaðarráðuneytið grípa til stuðnings innlendum skipasmíðaiðnaði?

Föstudaginn 17. okt. sl. sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frá sér fréttatilkynningu vegna ákvörðunar Evrópusambandsins frá því í sumar um að styrkir til smíði fiskiskipa innan EES-svæðisins séu óheimilir. Í ályktuninni kemur fram að aðstoð vegna smíði fiskiskipa sé ekki heimil samkvæmt tilskipun um ríkisstyrki til skipasmíða nema skipin séu til útflutnings til landa utan Evrópusambandsins og EES-svæðisins. Á meðan unnið var að undirbúningi ákvörðunar Eftirlitsstofnunarinnar skuldbatt norska ríkisstjórninn sig til þess að flytja á þinginu tillögu um lagfæringu á ríkisstyrkjum í Noregi, þannig að reglum um styrki vegna smíði fiskiskipa verði fylgt og engin aðstoð verði veitt skipasmíðastöðvum til smíði fiskiskipa eða breytinga á þeim nema þegar um er að ræða útflutning frá Noregi til landa utan EES-svæðisins. Með öðrum orðum er búið að banna með öllu styrki til smíði fiskiskipa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Styrkir eru hins vegar leyfðir vegna smíði annarra skipa í samræmi við tilskipun nr. 7 sem fyrirhugað er að framlengja til loka næsta árs.

Þar sem Bandaríkjaþing hefur enn ekki staðfest svokallað OECD-samkomulag um afnám ríkisstyrkja til skipasmíða hefur Evrópusambandið ákveðið einhliða að taka upp nýjar reglur frá og með 1. janúar 1999 eftir að tilskipun 7 rennur út í lok árs 1998. Þessar nýju reglur endurspegla í meginatriðum helstu efnisatriði OECD-samkomulagsins um afnám ríkisstyrkja í skipasmíðaiðnaði og mun því draga úr styrkjum til skipasmíða. Þessar reglur munu einnig gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins á sama tíma.

Þessar nýju reglur Evrópusambandsins miða að því að draga úr og afnema ríkisstyrki til skipasmíða. Framleiðslustyrkir munu samkvæmt þessum nýju reglum verða leyfðir til ársloka 2000 og er styrkjaþakið óbreytt 9%. Ekki er ástæða til þess að rekja helstu ákvæði þessara nýju reglna hér þar sem allir styrkir til smíði fiskiskipa eru nú þegar bannaðir.