Áburðarverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:21:27 (758)

1997-10-22 14:21:27# 122. lþ. 14.3 fundur 79. mál: #A Áburðarverksmiðjan hf.# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Nokkur tími er liðinn frá því að ég hreyfði málefnum Áburðarverksmiðjunnar utan dagskrár í þessari stofnun og rak á eftir því að eitthvað yrði gert. Þá var því lýst yfir af hæstv. ráðherra að tekið yrði á málinu en það var síðan ekki gert. Síðan hefur Áburðarverksmiðjan engst í snörunni. Starfsmenn hennar og forustulið hafa ekkert vitað hvað yrði um verksmiðjuna. Það virðist ríkja fullkomið ráðleysi í ríkisstjórninni í þessum efnum, í umhvrn., í landbrn. Framsfl. talar yfirleitt um vetni og peroxíð þegar kemur að vandamálum Áburðarverksmiðjunnar sem leysir ekki vanda hennar að neinu leyti, því miður.

Áburðarverksmiðjan var almennt ríkisfyrirtæki og hún gekk vel. Þá var tekin um það ákvörðun að heimila innflutning á áburði. Vorið 1993 eða 1994 var ákveðið að gera verksmiðjuna hf, af því að háeff er orðið trúaratriði stjórnvalda eins og núv. formaður landbn. orðaði það. Framsfl. snerist sem sagt gegn þessari háeffun Áburðarverksmiðjunnar eins og hún var ætluð á sínum tíma.

Þegar núv. landbrh. tók við setti hann málið út af sínu borði og lét það í hendur einkavæðingarnefndar. Hún var síðan að druslast með þetta mál langtímum saman. Á meðan beið starfsfólkið í óvissu og vissi ekkert hver yrði framtíð þess í þessum efnum. Loksins var svo ákveðið að auglýsa verksmiðjuna. Hún var auglýst og auglýst var eftir tilboðum. Tvö tilboð komu, það var í fyrrasumar. Tilboðin voru fullgild en það varð niðurstaða einkavæðingarnefndar, ekki ráðherrans, að ástæðulaust væri að taka þessum tilboðum, þau væru allt of lág miðað við raunverulegt verðmæti verksmiðjunnar. Síðan hefur ekkert spurst til málsins fyrr en lögð er fram fyrirspurn á Alþingi. Þá vaknar ráðherrann loksins og tekur ákvörðun um það samkvæmt blaðafregnum í dag, en það er orðinn siður ráðherra að svara fyrirspurnum í blöðum samdægurs, að fresta málinu enn einu sinni. Framsfl. ætlar því áfram að vinna það handlangarahlutverk fyrir einkavæðingarliðið í landinu að halda Áburðarverksmiðjunni í greip sinni og láta henni blæða út smátt og smátt vegna þess að það er stórfellt tap á Áburðarverksmiðjunni eins og er og engin aðstaða hefur verið sköpuð fyrir forustulið verksmiðjunnar til þess að endurnýja hana á neinn hátt þannig að hún geti staðið af sér vaxandi samkeppni. Það er því verið að fara illa með Áburðarverksmiðjuna. Ég tel þess vegna ástæðu til þess að bera fyrirspurnina fram þó svo ráðherrann hafi gefið þessa yfirlýsingu í Morgunblaðinu í dag því að Morgunblaðið er ekki þingskjal þó að það sé merkilegt. Ég spyr ráðherrann aftur: Hvenær á þessum ósköpum að linna fyrir Áburðarverksmiðjuna eins og hún er starfrækt núna í Gufunesi?