Réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 14:42:53 (765)

1997-10-22 14:42:53# 122. lþ. 14.5 fundur 105. mál: #A réttur tannsmiða og sjóntækjafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ekki alls kostar rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að hér væru fáir eða nær engir sjóntækjafræðingar sem hefðu rétt til sjónmælinga. 22 hafa nú lokið námskeiði sem gefur þeim þennan rétt. 27 sjóntækjafræðingar eru starfandi á landinu, 22 luku námskeiði sem gefur þeim rétt til þess að mæla sjón í öllum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins nema á Íslandi og í Grikklandi. Þeir hafa þessi réttindi sem duga til í öllum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins nema hér og í Grikklandi.

Þetta námskeið fékk um 300 þús. kr. styrk frá menntmrn. þannig að það er ákveðin viðurkenning á það nám sem þarna fór fram og útskrift hefur þegar átt sér stað. Það er auðvitað mjög slæmt að þessi starfsstétt skuli ekki geta nýtt þau réttindi sem námið gefur í þessum tveimur löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins eins og öllum hinum. Og við það verður ekkert unað.

Það er jafnframt ljóst hvað varðar hina stéttina, tannfræðinga, að þrátt fyrir úrskurð Samkeppnisráðs, þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og þrátt fyrir það að þeir hafi gert samning við Tryggingastofnun ríkisins og séu nú að vinna að samningsgerð við Tryggingastofnun ríkisins, þá er viðhorf Tannlæknafélags Íslands til þessara stétta slíkt að það er hreinlega sent út í fréttatilkynningu frá Tannlæknafélagi Íslands, núna síðast 9. október 1997, að ekki skuli unnið með þeim tannsmiðum sem gera þessa samninga við Tryggingastofnun ríkisins. Tannsmiðir hafa farið héðan af landi brott vegna þess að við þá hefur ekki verið skipt. Nú segir í frv. sem var til í ráðuneytinu 1993--1994 að þarna er samt sem áður um það að ræða að þetta er um 30% sparnaður í kostnaði fyrir þá sjúklinga sem skipta við þessar stéttir.