Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:01:18 (768)

1997-10-22 15:01:18# 122. lþ. 15.8 fundur 6. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Þetta er endurflutt þáltill., líklega í þriðja eða fjórða sinn. Flutningsmenn ásamt mér nú eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, 14. þm. Reykv., og Össur Skarphéðinsson, 15. þm. Reykv.

Tillaga þessi er endurflutt sökum þess að enn situr að mestu leyti allt við hið sama í Írak hvað varðar hörmulegar aðstæður alls þorra almennings þar þrátt fyrir að samkomulag hafi tekist eftir langt þóf um að leyfa lítils háttar útflutning á olíu til að kaupa afar takmarkað magn af matvælum og lyfjum inn í landið. Ríkir þar nánast hungursneyð og nær alger skortur á lækningatækjum og lyfjum, enda er endurgjald hinnar takmörkuðu olíusölu að verulegu leyti gert upptækt í stríðsskaðabætur.

Nú er talið af þeim aðilum sem gerst þekkja til eins og Rauða krossinum og barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleiri slíkum aðilum að mannfallið í Írak sé komið á aðra milljón og þar af séu um 600 þúsund börn fallin frá því að Persaflóastríðinu lauk, aðallega vegna matvælaskorts og skorts á lyfjum og læknishjálp. Vatnskerfi og rafveitur eru í megnasta ólagi, vörudreifingarkerfið er mjög takmarkað og aðstæður sem sagt alls þorra almennings hinar hörmulegustu.

Varðandi hið upphaflega markmið viðskiptabannsins, sem gefið var upp á sínum tíma þegar það var sett á í kjölfar stríðsins eða innrásarinnar í Kúveit, að gera harðstjórn Saddams Husseins erfitt fyrir og hrekja hann helst úr embætti, þá bólar ekki á því enn að staða hans hafi veikst nema síður sé. Margt bendir reyndar til þess að hann sé, ef eitthvað er, heldur fastari í sessi en áður. Því miður er það svo að öllum er ljóst sem til þekkja að fórnarlömb þessa viðskiptabanns eru ekki valdhafar. Harðstjórn landsins er ekki að bogna undan þrýstingi af þeim sökum, enda í aðstöðu til þess að gera sæmilega við sjálfa sig þó að mikil neyð ríki í landinu. Viðskiptabannið er því ekki að skila neinum sýnilegum árangri að því er séð verður hvað það varðar að knésetja harðstjórn Saddams Husseins. Hins vegar hlýtur heimsbyggðin að horfa á þær skelfilegu afleiðingar sem þetta ástand í landinu hefur í för með sér hvað sem sögulegum ástæðum þess líður og það hljóta að teljast mikil eindæmi, herra forseti, að heimsbyggðin skuli þurfa að horfa upp á 600 þúsund börn fallin í valinn í raun og veru á grundvelli ákvarðana Sameinuðu þjóðanna eða öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég vil ekki nota hér orðin með blessun Sameinuðu þjóðanna því að því er að sjálfsögðu ekki fyrir að fara, en um hitt verður ekki deilt að afleiðingarnar af þessu viðskiptabanni eru þessar.

Mjög mikil umræða fer fram víða um heim, ekki síst í ljósi þess sem menn hafa horft upp á að gerast í Írak, að taka verði til gagngerðrar endurskoðunar beitingu aðgerða af þessu tagi, viðskiptaþvingana sem tækis í alþjóðastjórnmálum og setja verði því skorður með hvaða hætti slíkum aðgerðum er beitt, þannig að þær brjóti ekki í bága við viðurkennd mannréttinda- og mannúðarsjónarmið og að því séu settar skorður að þær séu þannig framkvæmdar, og þannig að þeim staðið eða yfirleitt ásettar ef ljóst er að fórnarlömbin eru fyrst og fremst almenningur og börn sem líða skort eða jafnvel bíða dauða af þeim sökum.

Reyndar er það skoðun mín, herra forseti, að taka þurfi slíkar aðgerðir í heild sinni til skoðunar og þá ekki síst framferði Bandaríkjamanna í þessum efnum sem sett hafa viðskiptabönn eða viðskiptaþvinganir á margar þjóðir með einhliða ákvörðunum á grundvelli stjórnmálaágreinings eða þess að þeir hafa ákveðið einhliða og að því er virðist án sannana annarra en þeirra, sem þeir sjálfir telja sig hafa, að stimpla tiltekin ríki sem stuðningsríki hryðjuverka. Fráleitast í þessu samhengi er að sjálfsögðu hið áratuga langa viðskiptastríð Bandaríkjamanna gegn Kúbu sem hefur stórlega skert lífsafkomu og þróunarmöguleika heillar kynslóðar í því landi og það ótrúlega gerist að á þeim tímum þegar stjórnarfar er heldur að þróast í átt til opnunar á Kúbu, þá herða Bandaríkjamenn á viðskiptaþvingununum, m.a. og ekki síst með setningu svonefndra Helms-Burton laga á árinu 1995 eða hertra ákvæða þeirra þar sem sá ótrúlegi atburður gerist í alþjóðasamskiptum að Bandaríkjamenn ætla sér lögsögu yfir fyrirtækjum þeirra landa sem í þeirra óþökk stundi viðskipti eða fjárfesti á Kúbu. Svipað má reyndar segja um sambærileg ákvæði sömu laga hvað varðar Írak, Íran og Líbíu. Þessum ákvæðum hafa menn að sjálfsögðu mótmælt og hefur t.d. Evrópusambandið og Evrópuríki harðlega mótmælt þeim. Sömuleiðis ýmsir nágrannar Bandaríkjamanna eins og Kanadamenn og Mexíkómenn, hygg ég, en allt kemur fyrir ekki. Þetta voldugasta ríki veraldarinnar situr við sinn keip og heyr áfram þennan áratugalanga viðskiptahernað gegn sínum litla nágranna á Kúbu.

Að setja slíkum aðgerðum skorður er að mínu mati nauðsynlegt að fella undir endurskoðun á meðferð þessara mála. Reyndar bundu menn vonir við að tilkoma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ákvæða um þessa hluti í samningum um hana mundi reynast eitthvert haldreipi í þessum efnum, en þá verður að fá menn til að fara eftir þeim. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að framferði Bandaríkjamanna sé skýlaust brot á ákvæðum sáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og séu ekkert annað en ólögmætar viðskiptaþvinganir, en það dugar skammt á meðan stórveldi í krafti efnahagslegra og hernaðarlegra yfirburða sinna fara sínu fram hvað sem alþjóðalögum líður.

Það kann ýmsum að finnast lítil ástæða til að við Íslendingar séum að eyða tíma okkar á löggjafarþinginu eða annars staðar í þjóðfélaginu til að hafa áhyggjur af þessum málum, hvort heldur það er barnadauði í Írak, þær þvinganir sem Kúbverjar hafa um áratuga skeið mátt búa við eða þess vegna, herra forseti, mannréttindaástandið í Indónesíu. Mönnum finnst kannski nærtækara að stunda útúrsnúninga í umræðum um slík mál en taka þau fyrir af einhverri alvöru en sá sem hér stendur hyggst ekki láta aftra sér frá því að hafa slík mál á dagskrá ef svo ber undir. Ég held að þá fyrst yrði nú pólitíkin lágkúruleg og lítils virði ef menn létu það alveg vera að láta sig varða örlög meðbræðra sinna þó að þeir búi einhvers staðar annars staðar á jörðinni.

Staðreyndin er líka sú, herra forseti, þó hljótt fari í umræðu um þessi mál, að við berum okkar fullu þjóðréttarlegu ábyrgð á ýmsu sem fram fer. Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðasamtökum sem fela í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar. Við höfum fullgilt mannréttindsáttmála og við erum þess vegna ekki alltaf jafnábyrgðarlausir í þessum efnum og ætla mætti þegar menn eru að afgreiða umræðuna uppi á Íslandi eða ýta henni frá sér.

Ef ég kem aftur að hinni siðferðilegu og pólitísku ábyrgð sem við berum á ástandinu í Írak, þá er hún hrein og bein, ósköp einfaldlega vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa fullgilt með sérstakri útgáfu reglugerðar, sem birt er í Stjórnartíðindum, aðild okkar að viðskiptabanninu sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tók ákvörðun um að setja á. Sú birting er dagsett 28. apríl 1992 og undirrituð af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og þáv. hæstv. utanrrh. og Þorsteini Ingólfssyni, sem ég hygg að þá hafi verið ráðuneytisstjóri í utanrrn. Með þessari auglýsingu, nr. 160/1992, um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661/1990 vegna innrásar Íraka í Kúveit tökum við Íslendingar að okkar leyti fulla pólitíska og siðferðilega ábyrgð á afleiðingum þessara gjörða. Við getum með öðrum orðum ekki skotið okkur undan því á einn eða annan hátt. Þó að viðskipti þessara landa kunni að hafa verið lítil eða ekki umtalsverð breytir stærðargráðan hér ekki máli heldur hitt að við eins og aðrar þjóðir sem fullgilt hafa þessa ályktun öryggisráðsins berum sameiginlega ábyrgð. Það snýr því ekkert síður að okkur stjórnmálamönnum Íslendinga en öðrum að taka til umræðu þetta ástand að velta því fyrir okkur hvort við getum borið að okkar leyti ábyrgð á því sem þarna fer fram.

Bæði fyrrv. hæstv. utanrrh. og núv. hæstv. utanrrh. eru þeir menn sem stjórnskipulega annast um framkvæmd þessara mála fyrir okkur og ég verð að segja, herra forseti, að mig hefur stundum undrað þögn þeirra í umræðum um slík mál. Hvorugur er til staðar hér í dag, en það er ekki í fyrsta skiptið sem fjarvera þeirra er nokkuð æpandi þegar umræður um þessi mál ber á góma. Þær ríkisstjórnir og þeir meiri hlutar sem stutt hafa bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn verða að sjálfsögðu líka að sínu leyti að axla ábyrgð á þessum ákvörðunum og út af fyrir sig einnig þingmenn allir og Alþingi sem hefur að sjálfsögðu möguleika á því að grípa inn í ef svo ber undir.

Ýmsir hafa gengið langt í yfirlýsingum um hversu alvarleg yfirsjón okkar sé í þessum efnum og ætla ég ekki að blanda því í sjálfu sér inn í þetta mál en ég tel þó, herra forseti, að okkur þingmönnum og ekki síst hæstv. fyrrv. og núv. ráðherrum þurfi að vera ljós sú ábyrgð sem á þeirra herðum hvílir vegna afleiðinganna af þessum gjörðum. Ég hygg, herra forseti, að ef þetta mannfall hefði orðið við aðrar aðstæður en þessar, í raun og veru ótrúlegu aðstæður, að það skuli vera afleiðinig af viðskiptabanni á grundvelli ákvarðana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þá hefði það þótt heimsbyggðinni nokkur tíðindi. Það gerist sem betur fer ekki á hverjum degi að 600 þúsund börn láti lífið á litlu árabili. Ef þetta hefðu verið náttúruhamfarir eða styrjaldarátök þá býst ég við að mönnum hefði orðið um og ó svo ekki sé fastar að orði kveðið. En það er eins og menn kjósi að horfa fram hjá þessum atburðum vegna þess hvernig þeir eru vaxnir eða hver hinn pólitíski og sögulegi bakgrunnur þeirra er. Að mínu mati leysir það menn ekki undan siðferðislegri ábyrgð þó að málin eigi sér ákveðinn sögulegan bakgrunn og einhverjir gætu freistast til að segja að þetta væri allt saman mannhundinum Saddam Hussein að kenna og þar með væri málið leyst, en þessi börn vakna ekki til lífsins þrátt fyrir það.

Það er ekki bara spurning, herra forseti, um þá sem hafa látið lífið eða munu gera það á næstu mánuðum eða missirum ef svo heldur sem horfir, heldur er ljóst að heil kynslóð fjölmennrar þjóðar hefur í raun og veru ýmist þurrkast út eða misst af öllum eðlilegum uppvaxtar- og þroskamöguleikum. Þeir sem halda lífi eru meira og minna vannærðir, hafa verið án skólagöngu og eðlilegra aðstæðna í uppeldinu.

Ég vona, herra forseti, að það takist að lokum að fá menn til umhugsunar um það á Íslandi að við getum ekki horft upp á þetta ástand vara til eilífðarnóns meðan ekki horfir til neinna breytinga í hinu pólitíska umhverfi, hvorki innan landamæra Íraks né í hinu alþjóðlega samfélagi, þá verðum við, sem á annað borð viljum láta þetta okkur einhverju skipta, að reyna að hefja upp rödd okkar hvort sem einhverjir hlusta á hana eða ekki.

Ég vil láta þess getið, herra forseti, að ég hef hreyft sambærilega við þessu máli eða með tiltölulega hliðstæðum hætti og hér er gert með tillöguflutningi á vettvangi Norðurlandaráðs og það verður að segja Norðurlandaráði til hróss, sem stundum er nú gert lítið úr, að tillöguflutningur á þeim bæ fær sjálfkrafa talsvert aðrar móttökur en t.d. þetta þingmál hefur fengið hér. Það fær sjálfkrafa vandaða umfjöllun í nefnd, það er sjálfkrafa tekið fyrir, það er sjálfkrafa skilað um það álitum en þessi tillaga er hér flutt í fjórða sinn, endurflutt í þriðja sinn hafandi þó aldrei hlotið þá náð fyrir augum t.d. hv. utanmrn. að koma þaðan. Vonandi verður þar breyting á, herra forseti, og ég get því miður víst ekki lagt annað til samkvæmt stjórnskipun þingsins en að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.