Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:16:54 (769)

1997-10-22 15:16:54# 122. lþ. 15.8 fundur 6. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessarar tillögu og mig langar til að leggja nokkur orð í belg vegna þessa alvarlega máls sem hér er komið á dagskrá. Ég hef sjálf fylgst nokkuð glöggt með þróun mála í Írak á undanförnum árum eins og væntanlega flestir þingmenn því að ég býst við að ég sé ekki ein um það að fá mikið af bréfapósti eða tölvupósti frá fólki víða að úr heiminum sem er að reyna að vekja athygli á því hörmulega ástandi sem ríkir í Írak og þá fyrst og fremst út frá sjónarhóli almennings og ekki síst barna.

Eins og fram kom í máli flm. hafa menn mjög miklar áhyggjur af framtíð þjóðarinnar í því landi þegar þróunin er öll í þá átt að það fækkar og fækkar í yngstu kynslóðinni. Ég las nýlega viðtöl við konur í Írak í ákveðnu kvennablaði og það var vægast sagt hörmuleg lesning. Yfirleitt var um að ræða vel menntaðar konur sem höfðu búið við mjög góð lífskjör fyrr á árum, en höfðu ýmist misst feður sína, eiginmenn eða bræður í styrjöldinni sem átti sér stað á sínum tíma milli Írana og Íraka eða í Kúveit-styrjöldinni ellegar að þeir höfðu jafnvel orðið fórnarlömb innlendra stjórnvalda. Allar áttu þessar konur það sameiginlegt að hafa orðið fyrir óskaplegu hruni í lífskjörum þó að þær stunduðu sína vinnu. Laun hafa lækkað alveg gríðarlega en aðallega hefur þó verðlag á öllum nauðsynjavörum hækkað upp úr öllu valdi vegna þess hve innflutningurinn er gríðarlega takmarkaður og á sér stað að miklu leyti í gegnum smygl. Samkvæmt þessum viðtölum er hægt að kaupa nánast hvað sem er á svörtum markaði, en það kostar líka gríðarlega peninga. Þessar konur voru búnar að selja nánast hvern einasta hlut sem til hafði verið á heimilinu og höfðu reynt að halda eftir einhverjum hnífapörum, diskum og rúmfötunum, en það var búið að selja yfirleitt allt. Það var gengið smátt og smátt á eignir heimilanna fyrir utan það að þær voru sumar orðnar vannærðar vegna mjög einhæfs fæðis, vegna þess að þær höfðu ekki lengur efni á að kaupa mat ofan í sig og börnin sín.

Þegar svona er komið, hæstv. forseti, hljótum við að spyrja til hvers alþjóðasamfélagið heldur uppi viðskiptabanni þegar það bitnar fyrst og fremst á almennum borgurum. Það er viðurkennt af öllum að yfirstéttin í Írak lifir í vellystingum praktuglega og notar þá peninga sem inn koma, hvernig sem það gerist, m.a. til þess að halda sjálfri sér og hernum uppi og halda uppi gæslunni í kringum einræðisherrann sem er alveg gífurleg. Þarna erum við að tala um einræðisríki þar sem ríkir mikið lögreglu- og herveldi og þar sem fylgst er mjög grannt með almennum borgurum til að koma í veg fyrir að þeir komist einhvern veginn nálægt einræðisherranum eða eigi þess kost að reyna að breyta ástandinu. Sú von alþjóðasamfélagsins eða Sameinuðu þjóðanna, að með því setja þjóðina í svelti með þessu móti mundi það leiða til þess að einræðisherranum yrði steypt af stóli, hefur því engan veginn ræst, enda er það svo sem þekkt úr sögunni og þarf ekki að fara lengra aftur en til síðari heimsstyrjaldarinnar að þegar reynt er að sauma svona að þjóðum eða með loftárásum eða hvað það er, þá verða slíkar aðgerðir oftast til að þjappa fólkinu saman. Flestir eiga í erfiðleikum og svona aðgerðir þjappa fólkinu saman.

Samt býst ég við að gríðarleg óánægja sé undir niðri í Írak en erfitt er að finna henni farveg og þegar leyniþjónustan er á hverju strái segir fólk auðvitað ekki neitt.

Ég tek því innilega undir það, hæstv. forseti, að mjög brýnt er að endurskoða þær aðferðir sem beitt hefur verið í Írak og aflétta þessu viðskiptabanni og reyna að sjá til þess að fólk fái þar að borða og þau lyf sem það þarf því að vannæringunni fylgja miklir sjúkdómar og þeir bitna ekki síst á börnunum og það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur. En því miður sýnist mér að heldur lítið hafi þokast í þá átt að aflétta viðskiptabanninu og maður spyr sig hversu lengi á að viðhalda því. Ætla menn að bíða þangað til þessum einræðisherra þóknast að hrökkva upp af? Eða hvað á þetta eiginlega að þýða? Það er reyndar ekki réttlætanlegt að mínum dómi, hæstv. forseti, að halda þessu viðskiptabanni áfram. En hversu lengi ætla þjóðir heims að samþykkja það að þessu verði haldið áfram.

Það er líka vitað að þetta viðskiptabann bitnar líka illa á Kúrdum. Það er herjað þindarlaust á Kúrda vegna þess að þeir búa í landamærahéruðunum. Eftir því sem ég hef lesið stunda þeir reyndar mikið smygl og það má vera að þeir hafi á vissan hátt grætt á þessu ástandi, en það er líka svo sannarlega herjað á þá af yfirvöldum í Írak. Þetta er því mjög erfitt mál, hæstv. forseti. Við getum spurt okkur hvaða aðferðir gagnast best til að breyta ástandinu og hafa áhrif á ástandið eins og þarna er, en aðgerðir sem nánast eingöngu bitna á konum, börnum, gamalmennum og þeim sem verst standa að vígi geta ekki verið réttlætanlegar. Það getur ekki verið réttlætanlegt að halda þessu áfram og því er afar brýnt að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að þessu viðskiptabanni verði aflétt og menn leiti þá annarra leiða til þess að breyta stjórnarfarinu í þessu ríki.