Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 22. október 1997, kl. 15:29:04 (771)

1997-10-22 15:29:04# 122. lþ. 15.8 fundur 6. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:29]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og undirstrika nokkur atriði. Í fyrsta lagi það sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál og stöðuna í einstökum tilvikum. Það þarf að gera greinarmun á því hvers eðlis eða hversu víðtækar slíkar aðgerðir eru. Það alvarlega við viðskiptabannið gagnvart Írak, sem auðvitað á sinn þátt í því að gera afleiðingarnar jafnalvarlegar og raun ber vitni, er að þar er um algert viðskiptabann að ræða. Þar var valin sú leið, án kannski mjög merkilegs rökstuðnings að mínu mati, að setja landið nánast í algera viðskiptalega einangrun. Það er talsvert önnur leið heldur en valin hefur verið í ýmsum öðrum tilvikum þegar að einhverju leyti hefur verið um alþjóðlegar aðgerðir að ræða þar sem menn hafa í mörgum tilvikum t.d. sett á vopnasölubann. Og ég skal svo sannarlega taka undir að það getur verið ástæða til þess að setja vopnasölubann á Írak og þótt víðar væri leitað, þar sem menn hafa kannski ákveðið að reyna að beita ríkið þrýstingi með því að takmarka fjárfestingar eða banna þær um eitthvert skeið, þar sem menn hafa jafnvel farið út í það að takmarka viðskipti með hátæknibúnað og vörur sem gætu tengst hernaði með einhverjum hætti, en það er frekar sjaldgæft og á seinni tímum eru ekki mörg dæmi sem betur fer um að aðgerðir af þessu tagi séu altækar, að um algert viðskiptabann sé að ræða.

Eins og hér hefur verið komið inn á bæði af mér og fleiri ræðumönnum, þá er það margra mál að þetta viðskiptabann á Írak, eða þess vegna viðskiptabannið á Kúbu, sé brot á mörgum alþjóðlegum sáttmálum. Ég held að fleiri og fleiri lögfræðingar séu að verða þeirrar skoðunar að það sé engin leið að komast fram hjá því að afleiðingar viðskiptabannsins í Írak ganga gjörsamlega í berhögg við ákvæði viðurkenndra mannréttindasáttmála, þá fyrst og fremst Genfarsáttmálann sjálfan og viðauka við hann, þannig að við erum þá komin í þá ótrúlegu stöðu, þjóðasamfélagið, að vera með aðgerðum af þessu tagi að brjóta grundvallarsáttmála sem reynt hefur verið að byggja á einmitt í sókn fyrir auknum mannréttindum og friðsamlegri heimi.

Sömuleiðis fer auðvitað fyrir lítið hið svokallaða viðskiptafrelsi og stofnsáttmáli nýju Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þegar menn vegna einhvers áratuga gamals stjórnmálaágreinings, eins og á sér stað í tilvikinu Bandaríkin-Kúba, viðhalda viðskiptabanni og jafnvel herða það. Hvernig sem á þetta mál er litið, herra forseti, hvort sem við nálgumst það frá mannúðarhliðinni, út frá okkar siðferðislegu ábyrgð og siðferðislegu skyldum, frá hinni pólitísku hlið og spurningu um hvort það skili tilætluðum pólitískum árangri, þeim að knésetja harðstjórnina í Írak eða, í þriðja lagi, hvort við nálgumst það frá lögfræðilegum eða þjóðréttarlegum sjónarhóli, það skiptir ekki máli. Það er jafnóþolandi að þetta ástand heldur áfram. Þess vegna þurfum við að beita okkur fyrir því að koma því á hreyfingu og Ísland gæti vel orðið sú þúfa sem veltir hlassinu í þessu máli eins og það hefur stundum áður reynst í afdrifaríkum málum, þ.e. ef menn vildu það viðhafa að beita okkar möguleikum sem sjálfstæðs ríkis til þess að koma þessu máli á dagskrá.