Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 10:51:02 (778)

1997-10-23 10:51:02# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[10:51]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um hollustuhætti sem er á þskj. 197, mál nr. 194 á þessu hv. þingi.

Frv. þetta er í megindráttum samið af nefnd sem ég skipaði 16. febrúar á fyrra ári til að endurskoða lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Í nefndinni áttu sæti auk starfsmanna umhvrn. fulltrúar tilnefndir af Hollustuvernd ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnuveitendasambandi Íslands og Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa. Nefndinni var falið að endurskoða áðurnefnd lög án þess að tiltekin væru einstök atriði en endurskoðunin beindist þó fyrst og fremst að nokkrum aðalatriðum sem eru eftirfarandi.

Í fyrsta lagi hvort ástæða væri til þess að stíga skrefið til fulls sem stigið var með lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er liggja til grundvallar gildandi löggjöf og fækka heilbrigðisnefndum verulega og að starfssvæði heilbrigðisnefnda yrðu hin sömu og eftirlitssvæði.

Í öðru lagi tengdist endurskoðun laganna hlutverki Hollustuverndar ríkisins, stjórnskipulagi hennar og starfsemi.

Í þriðja lagi snerist endurskoðunin um starfsleyfismál. En starfsleyfismál samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit hafa verið mikið til umræðu að undanförnu jafnt utan þings sem innan.

Í fjórða lagi var fjallað um gjaldskrármál og ákvarðanir um gjaldtöku. Enn fremur beindist endurskoðunin að eftirliti með framkvæmd laganna, sérstaklega með hliðsjón af starfsemi Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda og hvort æskilegt væri að heilbrigðisnefndir sem eru starfsnefndir sveitarfélaganna tækju í auknum mæli yfir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, jafnvel í sérhæfðum tilvikum, en slíkt eftirlit hefur að miklu leyti verið í höndum Hollustuverndar ríkisins.

Enn fremur fjallaði nefndin um úrskurðarmál samkvæmt lögunum en þau hafa í tengslum við starfsleyfismál verið mikið til umfjöllunar að undanförnu og um viðurlög vegna brota gegn lögum þessum. Mun ég gera nánari grein fyrir helstu breytingum hér á eftir.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að gera stutta grein fyrir þróun hollustuháttalöggjafar á undanförnum árum en gildandi lög eru að stofni til frá 1981, þ.e. lög nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en þau öðluðust gildi í ágúst 1982 og hafa því verið í gildi í rúm 15 ár.

Hollustuvernd ríkisins, sem tók til starfa samkvæmt lögunum, hefur því starfað í 15 ár og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefur verið rekið samkvæmt gildandi kerfi þann sama tíma. Í lögum nr. 50/1981 var fyrst kveðið á um að heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit skyldi rekið í landinu öllu með skipulegum hætti og að ekkert sveitarfélag væri án viðhlítandi heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits. Jafnframt var kveðið á um að heilbrigðisfulltrúar með tilskilin réttindi byggðum á menntun, reynslu og hæfni, skyldu starfa á öllum eftirlitssvæðum. Eftirlitssvæði voru upphaflega tólf en var fjölgað með reglugerð skömmu síðar í þrettán. Heilbrigðisnefndum var fækkað úr rúmlega 200 í 46 en áður var heilbrigðisnefnd í hverju sveitarfélagi.

Í lögunum var í fyrsta skipti tekið skipulega á mengunarmálum í íslenskri löggjöf og kveðið á um setningu sérstakrar mengunarvarnareglugerðar. Sameinaðar voru í einni stofnun Hollustuvernd ríkisins, nokkrar ríkisstofnanir, þ.e. Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Matvælarannsóknir ríkisins og Geislavarnir ríkisins, auk þess sem stofnað var sérstakt svið innan stofnunarinnar, mengunarvarnasvið. Geislavarnir voru teknar undan stofnuninni með lögum nr. 117/1985 og gerðar að sjálfstæðri stofnun. Síðan hafa verið gerðar verulegar breytingar á lögunum í tvígang. Annars vegar með lögunum nr. 109/1984, sérstaklega í tengslum við gjaldtöku og gjaldskrármál, og með lögum nr. 81/1988 en þær breytingar snertu fyrst og fremst starfsemi Hollustuverndar ríkisins. Samkvæmt þeim breytingum skyldi starfa framkvæmdastjóri yfir Hollustuvernd ríkisins en ekki forstjóri eins og verið hafði. Auk þess skyldu starfa forstöðumenn sviða sem bæru faglega ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar en ekki gagnvart forstjóra eins og verið hafði. Með þessu var ætlunin að leggja meiri áherslu á faglega starfsemi stofnunarinnar sem aukist hafði verulega og um leið var sett á stofn sérstakt eiturefnasvið við stofnunina þannig að sviðin urðu fjögur; heilbrigðiseftirlitssvið sem m.a. fjallaði um matvælin, rannsóknarsvið, mengunarvarnasvið og eiturefnasvið.

Eins og sjá má á framangreindu hafa orðið verulegar breytingar innan málaflokksins á þeim 15 árum sem lögin hafa verið í gildi og Hollustuvernd ríkisins hefur starfað. Það sem ég hef áður nefnt og varðar m.a. auknar skyldur Hollustuverndar ríkisins er aðeins hluti þeirra breytinga því samningur um Evrópskt efnahagssvæði sem tók gildi 1. janúar 1995 hefur sennilega ekki haft eins mikil áhrif á nokkra íslenska stofnun og Hollustuvernd ríkisins. Hollustuvernd ríkisins þarf í dag að fylgjast með 400 Evrópugerðum sem tengjast þeim málaflokkum sem stofnunin annast á sviði matvæla-, mengunar- og eiturefnamála og rannsókna. Þetta hefur kallað á gríðarlega vinnu af hálfu stofnunarinnar sem og umhvrn. Þetta hefur líka leitt til þess að stjórnsýsluhlutverk Hollustuverndar ríkisins hefur aukist verulega frá því sem var enda beindist endurskoðun laganna m.a. að þeirri staðreynd auk annarra atriða sem ég hef þegar nefnt.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. þar sem gerð er sérstök grein fyrir helstu breytingum og nýmælum er um verulegar breytingar á gildandi löggjöf að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að gera þeim öllum skil hér enda ítarlega um þær fjallað í athugasemdunum sjálfum.

Ég ætla hins vegar að fara nokkrum orðum um þær breytingar sem ég tel skipta mestu máli og varða uppbyggingu stjórnkerfis og eftirlit innan málaflokksins.

Samkvæmt gildandi lögum er gildissvið þeirra landið, landhelgin og lofthelgin. Lagt er til að lögin nái einnig yfir efnahagslögsöguna sem og farkosti sem ferðast undir íslenskum fána. Það er vitanlega útilokað að lög sem þessi sem eru heildarlög á heilbrigðiseftirlits- og mengunarvarnasviði nái aðeins út að 12 mílum eins og landhelgin er skráð samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Lögin verða að gilda á íslensku yfirráðasvæði enda er það í samræmi við önnur lög sem og alþjóðasamninga sem stofnunin starfar eftir og annast framkvæmd og varða mengun sjávar. Einnig er nauðsynlegt að íslensk skip sem stunda t.d. fiskveiðar á fjarlægum miðum falli undir lögin að svo miklu leyti sem önnur lög taka þar ekki yfir.

Í 4., 5. og 6. gr. frv. er gerð tillaga um hvernig staðið skuli að útgáfu starfsleyfa fyrir starfsemi sem fellur annars vegar undir heilbrigðisreglugerð og hins vegar mengunarvarnareglugerð. Sú stefna er mörkuð að starfsleyfi fyrir starfsemi sem fellur undir heilbrigðisreglugerð verði í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga en sé um að ræða starfsleyfi gefin út samkvæmt mengunarvarnareglugerð skulu þau vera í höndum umhvrh. sé um meiri háttar atvinnurekstur að ræða en annars í höndum Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefndar samkvæmt reglugerð sem ráðherra gefur út. Nánar er útlistað í 6. gr. hvernig unnið skuli að starfsleyfum sem ráðherra gefur út. Þar er um að ræða atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun ef samanlögð fjárfesting er meiri en 950 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu í september sl. sem er 225,9 stig og skal fjárhæðin breytast í samræmi við breytingar á þeirri vísitölu. Þessi upphæð er útreiknuð með hliðsjón af því sem verið hefur á undanförnum árum. Það er því ekki breyting á þeim stærðarmörkum hvað fjárfestinguna varðar.

Hollustuvernd ríkisins er ætlað að vinna drög að starfsleyfistillögum sem umhvrh. gefur út og skal stofnunin auglýsa opinberlega hvers efnis drögin eru og hvar þau megi nálgast. Í framhaldi af auglýsingunni er öllum heimilt að gera skriflegar athugasemdir við drög Hollustuverndar ríkisins innan átta vikna frá auglýsingu. Í framhaldi af því skal Hollustuvernd ríkisins innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemd við drög að starfsleyfi rennur út senda ráðherra tillögur sínar að starfsleyfi ásamt greinargerð þar sem fram skulu koma athugasemdir við tillögudrögin og hvernig tekið var á athugasemdunum.

Þar er t.d. brýnt að Hollustuverndin geri grein fyrir því hvaða athugasemdir hafa ekki verið teknar til greina og hvaða rök liggja að baki því. Skal umsækjanda að starfsleyfi sem og þeim sem gera athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna og gerð grein fyrir hvort og þá að hve miklu leyti athugasemdir hafa verið teknar til greina. Síðan er öllum heimilt að gera skriflegar athugasemdir við tillögu Hollustuverndar til umhvrh. innan fjögurra vikna frá tilkynningu um afgreiðslu. Að þessum fresti liðnum tekur umhvrh. ákvörðun um útgáfu slíkra starfsleyfa. Ákveði hann að gefa út starfsleyfi skal það birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Rétt er að geta þess að þær framkvæmdir sem hér um ræðir eru þess eðlis að oftast liggja til grundvallar sérstök lög um framkvæmdina, svo sem um rekstrarform og fjármögnun. Hér er því aðeins um stærstu framkvæmdir að ræða. Frá því að þessi regla var tekin upp í mengunarvarnareglugerð 1992 hefur ráðherra aðeins gefið út tvö starfsleyfi, annars vegar fyrir stækkun álversins í Straumsvík og hins vegar fyrir nýtt álver í Hvalfirði.

[11:00]

Rétt þykir að kveða skýrt á um í lögunum hvernig þessum málum skuli háttað svo að ekkert fari á milli mála og með þeim ákvæðum sem ég hef áður lýst á að vera tryggt að allur almenningur geti komið athugasemdum sínum á framfæri. Ég tel rétt að benda á að hvergi kemur fram beint í lögunum hver skuli gefa út starfsleyfið að öðru leyti en því sem fram kemur í 16. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, samanber breytingu nr. 70/1994, að umhvrh. setji í mengunarvarnareglugerð ákvæði um útgáfu starfsleyfa á vegum Hollustuverndar ríkisins.

Allt frá setningu fyrstu mengunarvarnareglugerðar nr. 164/1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, hefur starfsleyfisútgáfa þegar um mengandi starfsemi er að ræða verið í höndum ráðherra. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem öðluðust gildi 1. ágúst 1982, er beinlínis tekið fram að þessi reglugerð nr. 164/1972, sem studdist við eiturefnalög frá 1968, skuli halda gildi sínu og er það endurtekið í lögum nr. 81/1988.

Fyrsta eiginlega mengunarvarnareglugerðin kom út á árinu 1989 og tók gildi í janúar 1990. Þannig má segja að þótt ekki hafi beinlínis komið fram í lögunum hvernig starfsleyfisútgáfu skyldi háttað hafi með ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem liggja til grundvallar gildandi lögum, verið lögfest það skipulag sem er við lýði sem er að starfsemisútgáfa þegar um mengandi starfsemi er að ræða sé í höndum ráðherra. Með mengunarvarnareglugerð sem gefin var út árið 1982, eins og áður er sagt frá, framseldi umhvrh. stærstan hluta starfsleyfisútgáfunnar til Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda.

Þegar um er að ræða önnur starfsleyfi en þau sem ráðherra gefur út skal ráðherra ákveða hvort Hollustuvernd ríkisins skuli gefa starfsleyfið út eða heilbrigðisnefnd. Framgangsmátinn er tiltekinn í mengunarvarnareglugerð, sbr. nú reglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum. Hollustuvernd ríkisins hefur þannig farið með útgáfu starfsleyfa sem teljast vandasamari og krefjast sérstakrar þekkingar og má þar sem dæmi nefna ýmiss konar verksmiðjur, svo sem síldar- og fiskimjölsverksmiðjur, en heilbrigðisnefndir hafa séð um aðra þætti. Starfsleyfi, gefin út af Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndum, eru kæranleg til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum, sbr. nánar 31. gr. frv. Ekki er gert ráð fyrir slíku kæruferli þegar ráðherra á hlut að máli eins og ég hef hér rakið að framan.

Í sambandi við skilgreiningar, sbr. nánar 3. gr. frv., er lagt til að krafist verði bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem hún hefur verið skilgreind, Best Available Technique, eða BAT eins og það er skilgreint á alþjóðlegum vettvangi og að ákvæði um mengunarvarnir skuli taka mið af því. Slík ákvæði yrðu sett í mengunarvarnareglugerð. Hér eru mörkuð tímamót að mínu áliti í íslenskum mengunarvarnalögum og gengið lengra en hjá flestum grannþjóðum okkar.

Gerð er tillaga um að undanþága frá einstökum greinum reglugerða, sem settar kunna að verða samkvæmt lögunum, séu í höndum umhvrh. og aðeins verði hægt að veita þær tímabundið eða allt að 12 mánuðum.

Engin ákvæði eru um þetta í gildandi lögum, en undanþágur hafa ýmist verið skilgreindar í heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð og undanþáguvaldið ýmist í höndum umhvrh. eða heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og í þeim tilvikum þá í samráði við sveitarstjórn og Hollustuvernd ríkisins.

Samkvæmt breytingunni yrði í fyrsta lagi aðeins hægt að veita tímabundnar undanþágur og í öðru lagi yrðu þær aðeins veittar af ráðherra sem gefur út reglugerðirnar.

Ein meginbreytingin sem felst í frv. er sú að lagt er til að heilbrigðisnefndum verði fækkað úr 46 í 10 og jafnframt að nefndirnar verði einnig svæðisnefndir þannig að saman færi starfssvæði heilbrigðisnefndar og eftirlitssvæði. Í dag starfa 46 heilbrigðisnefndir á 13 starfssvæðum og eru nefndirnar allt frá því að vera ein á hverju svæði upp í níu. Reynslan hefur sýnt að nú sé tímabært að stíga það skref til fulls sem markað var með lögunum frá 1981 að fækka heilbrigðisnefndum sem kostur er. Breytingin yrði þá fólgin í því að í stað 13 svæða yrðu svæðin 10. Jafnframt eru sveitarfélögin á viðkomandi svæði sem heild ábyrg fyrir rekstri eftirlitsins en ekki einstök sveitarfélög.

Lagt er til að í heilbrigðisnefndunum verði fimm menn skipaðir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum. Fjórir skulu kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórn á svæðinu og skulu sveitarstjórnir koma sér saman um formann nefndarinnar. Fimmti aðilinn í nefndinni skal skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka atvinnurekenda á svæðinu. Í þessu tilviki er rétt að hafa í huga að atvinnustarfsemin í landinu stendur undir kostnaði við 70--80% heilbrigðiseftirlitsins og er því ekki aðeins eðlilegt heldur nauðsynlegt að þessir aðilar komi sjónarmiðum sínum að í nefndunum.

Í 17. gr. frv. er lagt til að ráðherra skipi hollustuháttaráð sem hafi það hlutverk að falla undir þá þætti sem undir lögin falla og varða atvinnustarfsemi, svo sem um samhæfingu krafna og stefnumörkun varðandi atvinnustarfsemi og gera tillögur um framkvæmdina. Ráðherra skal leita álits ráðsins um þá þætti sem varða atvinnustarfsemi, svo sem lagabreytingar, stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár. Lagt er til að í ráðinu eigi sæti fulltrúi umhvrh. sem verður formaður, forstjóri Hollustuverndar ríkisins, fulltrúi frá Vinnuveitendasambandi Íslands, fulltrúi frá Vinnumálasambandinu og fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga. Ástæðan fyrir því að lögð er til stofnun hollustuháttaráðs er sú að ekki er gerð tillaga um að stjórn verði yfir Hollustuvernd ríkisins, samanber nánar 18. gr., og er því talið æskilegt að áðurnefndir aðilar geti komið að málunum með lögskipuðum hætti.

Í 18. gr. er að finna það nýmæli að aðeins er gert ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins fari með beint eftirlit ef lög mæla svo fyrir að ráðherra ákveður það með reglugerð. Samkvæmt gildandi lögum fer Hollustuvernd ríkisins með beint eftirlit þegar um er að ræða innflutningseftirlit með matvælum, eiturefnum og hættulegum efnum og eftirlit með starfsemi sem veldur meiri háttar mengun. Byggist þetta annars vegar á því að hér er um að ræða eftirlit sem nær til alls landsins en hins vegar eftirlit sem getur verið mjög flókið og kallar á sérþekkingu. Ekki er þó gert ráð fyrir að í fyrstunni verði breyting hér á, samanber ákvæði til bráðabirgða þar sem fram kemur að þrátt fyrir breytingar á eftirlitsstarfsemi Hollustuverndar ríkisins varðandi innflutningseftirlit með matvælum og eiturefnum skuli starfsemi haldast óbreytt þar sem reglugerð hefur verið sett sem kveður á um eftirlitshlutverk heilbrigðisnefndanna.

Hið sama mundi gilda um eftirlit með meiri háttar mengandi starfsemi. Hér gætir enn og aftur þeirrar stefnu að færa eftirlitið enn frekar yfir til sveitarfélaganna í samræmi við það sem ég hef áður sagt og að Hollustuvernd ríkisins verði í auknum mæli stjórnsýslustofnun á verkefnasviði sínu. Þar sem hluti af starfsemi Hollustuverndar ríkisins, bæði eftirlitsstarfsemi sem og rannsóknarstarfsemi, kann að vera í samkeppnisrekstri er gerð tillaga um að sú starfsemi verði fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Á vegum Hollustuverndar ríkisins er rekin rannsóknarstofa sem annast matvælarannsóknir og hefur hún að mínu áliti átt drýgstan þátt í því að hægt hefur verið að halda úti öflugu matvælaeftirliti á vegum heilbrigðisnefnda sem og Hollustuverndar ríkisins en tengsl með þeim hætti sem um ræðir, þ.e. innan stofnunarinnar og beint við eftirlitsaðila eru ómetanleg hvað sem líður allri einkavæðingu og samkeppnisrekstri. Verður að fara mjög varlega í að leggja þá starfsemi niður og færa yfir til einkaaðila.

Lagt er til að ekki verði stjórn fyrir Hollustuvernd ríkisins, samanber nánar 20. gr., en í staðinn verði yfir stofnuninni forstjóri sem stjórni henni undir yfirstjórn umhvrh. Forstjórinn skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verkefnasviði stofnunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir því að sviðaskipting stofnunarinnar verði lögbundin þó vitanlega sé enn gert ráð fyrir að hún starfi sviðaskipt. Gert er ráð fyrir því að yfir hverju sviði, hver sem sviðin verða, starfi forstöðumaður með sérþekkingu innan málaflokksins. Forstöðumenn eru ábyrgir gagnvart forstjóra enda er ráðningarvaldið í höndum forstjórans.

Kveður hér við annan tón en í gildandi lögum þar sem forstöðumenn eru aðeins ábyrgir gagnvart framkvæmdastjóra stofnunarinnar þegar um fjárhagsleg málefni er að ræða en annars vegar stjórn. Þessi breyting er í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á starfsmannalögum, sbr. lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og þá auknu áherslu sem lögð verður á stjórnsýsluhlutverk Hollustuverndarinnar.

Í tengslum við gjaldskrármál heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna vil ég geta þess að fjallað er um þau í 12. gr. annars vegar og hins vegar í 25. gr. Í 12. gr. er kveðið á um að umhvrh. setji hámarksgjaldskrá að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga í tengslum við gjaldtöku sveitarfélaganna vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits. Í dag er þannig staðið að málum að ráðherra staðfestir gjaldskrá fyrir hvert eftirlitssvæði og kunna þær að vera mismunandi. Hefur þetta sætt gagnrýni en engin ástæða til að vera með mismunandi gjaldskrá. Nái breytingin fram að ganga gæfi umhvrh. út annars vegar gjaldskrá fyrir heilbrigðiseftirlit og hins vegar mengunarvarnaeftirlit sem gilda mundi á öllum starfssvæðum. Yrði um hámarksgjaldskrár að ræða þar sem tekið yrði mið af sannanlegum kostnaði við eftirlitið sem sveitarfélögin gætu nýtt sér í hámarki, að hluta eða alls ekki. Um aðra gjaldtöku yrði hins vegar ekki að ræða. Mundi þetta auðvelda alla framkvæmd eftirlitsins og væntanlega létta á sveitarfélögunum sem og umhvrn. verulegri vinnu sem fólgin er í mörgum og mismunandi gjaldskrám en umhvrn. þarf að gaumgæfa allar gjaldskrár vel og vandlega og kanna sérstaklega hvort innheimt sé í samræmi við sannanlegan kostnað því að hér er ekki um skattheimtuheimild að ræða.

Í 25. gr. er hins vegar fjallað um gjaldskrár sveitarfélaga þegar um er að ræða sérstakar samþykktir, svo sem um sorplosun, hundahald, gæludýrahald o.s.frv. Í þeim tilvikum er sú breyting lögð til að ráðherra geti sett gjaldskrár að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga og umsögn Hollustuverndar ríkisins sem höfð skuli til viðmiðunar við eftirlit og þjónustu sveitarfélaga en ekki er lagt til að sú heimild verði tekin af sveitarfélögunum að setja sér sérstakar gjaldskrár í slíkum tilvikum í samræmi við þann kostnað sem af eftirliti og þjónustunni hlýst.

Í 31. gr. er fjallað um úrskurðarnefnd. Henni er ætlað að fjalla um ágreining sem rís um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykktir sveitarfélaganna og ákvarðanir yfirvalda og úrskurða í slíkum málum. Kemur þá nefndin í stað ráðherra sem ella fari með þetta úrskurðarvald samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með endanlega afgreiðslu mála, samanber starfsleyfismál sem ég ræddi hér á undan, skal þeim ekki vísað til úrskurðarnefndar og sama gildir sé um að ræða ágreining milli heilbrigðisnefnda og sveitarstjórna um framkvæmdina en þá skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra sbr. 32. gr. Sú breyting er lögð til af úrskurðarnefndinni að í hana tilnefni umhvrh. einn fulltrúa í stað landlæknis, enn fremur að allir nefndarmenn skuli vera lögfræðingar er uppfylli skilyrði til þess að geta verið héraðsdómarar en ekki aðeins einn eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Þau atriði sem koma til kasta nefndanna eru fyrst og fremst lögfræðilegs eðlis, bæði að formi til og efni. Það verður að teljast eðlilegt að umhvrh. sem ella færi með úrskurðarvald ef ekki væri til taks sérstök úrskurðarnefnd skipi einn fulltrúa í nefndina.

Í 33. gr. er lagt til að brot gegn lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga og fyrirmælum heilbrigðisnefnda geti varðað fangelsi en í dag varða slík brot sektum og varðhaldi. Það er nokkuð sammerkt með umhverfislöggjöfinni hér á landi að refsiákvæði eru væg og sæta í fáum tilfellum meiri refsingar en varðahaldi. Ástæða er til þess að breyta þessu og taka eins á þessum málum og þegar brotið er gegn öðrum stjórnsýslulögum landsins eins og gert hefur verið í nágrannalöndunum, þar á meðal annars staðar á Norðurlöndunum.

Lagt er til að lög nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, falli niður en öll ákvæði þeirra laga er að finna í öðrum lögum, svo sem í sóttvarnalögum, nr. 19/1997, sem og í frv. þessu. Nefnd sem starfaði á vegum umhvrn., heilbrrn. og landbrn. og fjallaði um lög nr. 7/1953 leggur til að þau verði felld úr gildi.

Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. jan. 1998. Að öðru leyti en því hvað varðar breytta skipan heilbrigðisnefnda og niðurlagningu svæðisnefnda en ætlast er til að þær starfi óbreyttar með framlengdu umboði til 1. ágúst 1998.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 1998 eins og vitað er og þannig gefst sveitarfélögum kostur á að koma á hinu nýja nefndakerfi sem frv. gerir ráð fyrir að afloknum þeim kosningum. Ég legg mikla áherslu á að lögin öðlist gildi sem fyrst að öðru leyti, ekki síst til að koma á réttarvissu varðandi útgáfu starfsleyfa og um úrskurðarferlið.

Hæstv. forseti. Ég hef að framan rakið helstu breytingar eins og þær birtast í frv. þessu en af mörgu öðru er að taka eins og áður er nefnt. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um frv. og vísa til ítarlegra athugasemda, bæði með sjálfu lagafrv. sem og einstökum greinum og legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. umhvn. með ósk um að nefndin hraði svo störfum að lögin geti öðlast gildi 1. janúar nk.