Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 11:31:50 (780)

1997-10-23 11:31:50# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[11:31]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að hér er um mjög viðamikið og mikilvægt mál að ræða. Vegna síðustu orða hv. síðasta ræðumanns þarf að gera meira en hlé á þingfundum, það yrði væntanlega að gera hlé á störfum fjárln. þar sem fjórir nefndarmenn í fjárln. sitja í umhvn. ef leggja ætti alla áherslu á þetta mál. En umhvn. er ekki óvön því að vera ætlað að fjalla um mjög stór og viðamikil mál og tekur það eins og það er. Hins vegar kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að hæstv. umhvrh. hefði komið að máli við hann í gær um hvort það væri í lagi að ræða þetta á þingfundi í dag. Það þóttu mér athyglisverð tíðindi. Ég veit ekki til að það hafi verið rætt við þingflokk Kvennalistans hvort það væri í lagi að ræða þetta mál í dag. Ég geri út af fyrir sig enga athugasemd við að málið sé rætt núna, hins vegar hafði ég ekki gert mér grein fyrir því í gær að svo yrði. Því miður var fundur í hv. fjárln. í morgun þannig að ég kem mjög illa undirbúin undir umræðuna. Hins vegar hef ég auðvitað tækifæri til að leita allra upplýsinga inni í nefndinni og það mun ég að sjálfsögðu gera. En ég fékk engar viðvaranir um að það yrði rætt í dag.

Ég reyndi að hlýða á hæstv. ráðherra. En það var nokkuð erfitt að fylgjast með og gera sér grein fyrir öllu því sem stendur í frv. Þó vil ég þrátt fyrir takmarkaðan undirbúning og nánast engan nefna þrjú atriði við 1. umr. sem ýmist gleðja mig eða vekja spurningar að ég segi ekki efasemdir. Bent er á að verið sé að reyna að tryggja að alltaf verði gerðar kröfur um bestu fáanlega tækni þegar gefin eru út starfsleyfi fyrir verksmiðjurekstur eða mengandi starfsemi. Út af fyrir sig er það ágætt. En við þekkjum umræðuna um bestu fáanlega tækni. Því miður eru mjög skiptar skoðanir um hvernig eigi að skilgreina bestu fáanlega tækni og um það áttum við mikil orðaskipti í sambandi við þau tvö starfsleyfi sem hæstv. núv. umhvrh. hefur gefið út. Við erum því ekki búin að tryggja að allir verði sáttir um það hvort bestu fáanlegri tækni sé beitt þegar mengandi starfsemi er sett á fót.

Í öðru lagi vil ég nefna að verið er að gera miklar breytingar á stjórn stofnunarinnar þar sem stjórn er lögð af en þá má segja að í staðinn komi það sem hér er kallað hollustuháttaráð. Það er í 17. gr. Þar er lagt til að skipað verði hollustuháttaráð til fjögurra ára í senn sem hefur það hlutverk að fjalla um þá þætti sem falla undir lögin og varða atvinnustarfsemi, svo sem samhæfingu krafna og eftirlits, stefnumörkun um atvinnustarfsemi og gera tillögu um framkvæmdina. Ráðherra skal leita álits ráðsins um þá þætti er varða atvinnustarfsemi, svo sem um lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár.

Í ráðinu eiga sæti fimm menn: Fulltrúi umhverfisráðherra er formaður, forstjóri Hollustuverndar ríkisins skal eiga sæti í ráðinu, Vinnuveitendasamband Íslands tilnefnir einn, Vinnumálasambandið einn og Samband íslenskra sveitarfélaga einn.

Enn einn ganginn sakna ég fulltrúa almennings eða umhverfisins, náttúrunnar eða hvernig við eigum að orða það. Ég spyr hvers vegna þau sjónarmið koma ekki þarna að. Ég gæti alveg eins nefnt t.d. að mér þætti eðlilegt að Náttúruvernd ríkisins ætti þarna fulltrúa. Það er alltaf erfitt að nefna hverjir eigi að gæta í rauninni hagsmuna almennings, hann er svo óskilgreindur, og við getum ekki tilnefnt einhvern eftir símaskránni eða annað slíkt. En mér finnst að þarna sé fyrst og fremst verið að hugsa um hagsmuni atvinnurekstrarins. Hann er því miður ævinlega settur í forgang þar sem mér finnst forgangurinn eigi að vera sá að gæta hagsmuna náttúruverndar og umhverfisverndar. Ég geri athugasemd við þetta og mun að sjálfsögðu ræða þetta í nefndinni.

Í þriðja lagi fagna ég því sem lagt er til í 33. gr. að viðurlög við brotum gegn lögunum verði hert. Það er mjög mikilvægt vegna þess að beinlínis hefur skort á að fylgt væri eftir athugasemdum við ýmsar slæmar aðgerðir og brot á lögum um mengunarvarnir en af einhverjum ástæðum hefur það reynst gjörsamlega máttlaust hvað varðar eftirfylgni þeirra laga vegna þess að heimildir hefur skort til að beita sektum eða viðurlögum af einhverju tagi.

Ég vil svo aðeins að lokum nefna aðstæður Hollustuverndar sem mig minnir reyndar að kæmi fram í ræðu hæstv. ráðherra þó ég þori ekki að fullyrða það vegna þess að ég var svo önnum kafin við að reyna bæði að hlusta á hann og hlaupa yfir frv. En Hollustuverndin hefur verið að fá sívaxandi hlutverk og æ fleiri verkefni að fást við án þess að vera skapaðar aðstæður til að sinna þessum hlutverkum. Það finnst mér mjög slæmt og athugunarvert. Hollustuvernd ríkisins hefur látið gera athugun, látið fara fram könnun á því hvert væri eðlilegt umfang stofnunarinnar miðað við öll þau verkefni sem henni hafa verið fengin og sem hefur fjölgað alveg gífurlega á undanförnum árum, sérstaklega eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kom til. Þau verkefni sem Hollustuvernd ríkisins hefur fengið í framhaldi af því eru óteljandi að mínu mati. Þeim hefur fjölgað gífurlega. Samkvæmt könnun sem Hollustuverndin lét gera var niðurstaðan sú að það þyrfti að tvöfalda fjölda starfsmanna. En eins og við vitum þá hefur það ekki gengið eftir og sennilega hafa þeir nú ekki búist við því. Það hefur mjög lítið verið komið til móts við beiðnir Hollustuverndar ríkisins um aukið fjármagn og fleiri starfskrafta inn á stofnunina til að sinna öllum þessum verkefnum.

Það vekur auðvitað athygli að fjárlagaskrifstofan gefur umsögn um þetta frv. Hún sér ljósið í öllum punktum. Hún býst við í fyrsta punkti að umsvif ráðsins verði heldur minni en stjórnarinnar, þessa hollustuháttaráðs sem verði skipað, umsvif þess verði heldur minni en hjá þeirri stjórn sem nú er yfir stofnuninni og heildaráhrifin verði lítils háttar sparnaður. Síðan er talað um þá breytingu sem er ætlað að gera og að hún muni skapa möguleika til sparnaðar eða betri nýtingar fjármuna eins og það er orðað. Í þriðja punktinum er samkeppnin að sjálfsögðu lofuð sem eigi að koma á, þar aðskildir verði þeir þættir sem séu líklegir til að verða í samkeppni við starfsemi utan stofnunarinnar og þannig gæti breytingin leitt til þess að umsvif minnki og það gæti leitt til lækkunar ríkisframlags. Í síðasta punkti er búist við að skilvirkari starfsemi muni draga úr vinnumagni og kostnaði. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Að öllu samanlögðu er mat fjármálaráðuneytis að frumvarpið hafi ekki för með sér teljandi breytingar á útgjöldum ríkissjóðs. Fjárhagsleg aðgreining þess rekstrar Hollustuverndar ríkisins sem er í samkeppni gæti leitt til lækkunar ríkisframlags en ekki er ljóst hvort það verður og þá að hve miklu marki.``

Þetta þykir mér mikil bjartsýni eða kannski má segja að það sé til marks um skilning eða öllu heldur skilningsleysi fjmrn. á því hvaða starfsemi fer þarna fram, hvaða verkefni stofnuninni eru fengin og hvað hún þarf til sín.

Ég get sagt það hér að ég mun leggja til í hv. umhvn. að þegar við förum yfir þann kafla í fjárlagafrv., sem snertir umhvrn., verði stofnunin heimsótt til að reyna að gera sér grein fyrir því hvers hún þarf við í þessu efni.