Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 11:55:43 (784)

1997-10-23 11:55:43# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[11:55]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég get tekið undir mál þeirra þingmanna sem hér hafa talað áður og lýst því að því miður hef ég ekki haft möguleika á að kynna mér þetta frv. til laga um hollustuhætti. En með því að líta yfir kaflana og greinarnar, þá sé ég að í 11. gr. sem fjallar um eftirlitssvæði og heilbrigðisnefndir stendur hvernig landinu er skipt í eftirlitssvæði og hvernig heilbrigðisnefndir skuli kosnar. Þar er svæðum skipt eftir núverandi kjördæmum. Ég vil benda sérstaklega á tvö svæði, Vestfjarða- og Austurlandssvæði sem eru því miður orðin fámenn kjördæmi og því miður líka ekki með allt of margar atvinnugreinar eða fyrirtæki innan síns svæði. Þetta eru stór og erfið landsvæði til yfirferðar og það verður í þessum lögum að taka tillit til þess. Það verður að taka tillit til landfræðilegra aðstæðna, stærðar landsins og vega- og samgöngumála. Það verður að vera faglegur stuðningur á milli þessara eftirlitsmanna eða heilbrigðisfulltrúa og því er einangrun í starfi mjög erfið og óæskileg. Ég sé fyrir mér að ef Austurland verður eitt starfssvæði þar sem heilbrigðisfulltrúarnir, eftirlitsmennirnir, eiga að vinna saman, þá fari mikið af þeirra tíma hreinlega í ferðalög fram og til baka um svæðið til að sinna því eftirliti sem þeim ber. Það væri hægt að skipta svæðinu niður í starfssvæði sem þýðir þá meiri einangrun þeirra heilbrigðisfulltrúa sem þar vinna. Því legg ég til að það verði skoðað mjög rækilega með tilliti til þessa, að annaðhvort verði hlutfallslega fleiri starfsmenn innan stjálbýlli svæða en þar sem fjölmenni er meira og styttri vegalengdir, eða þá að þessum svæðum verði hreinlega skipt í fleiri starfsvæði. Annaðhvort held ég að verði að koma til til þess að eftirlitið verði virkt og starfsmenn fáist til starfa og einangrist ekki faglega og félagslega í sínu starfi og að eftirlitið verði eins og við ætlumst til með þessum lögum að það verði. Hæstv. umhvrh. verður að taka tillit til þessara þátta. Ég vona að umhvn. verði gefinn góður tími til þess að fara vel yfir alla þætti og vinna þetta vel því að þetta er það mikilvægt lagafrv. sem hér liggur fyrir að það verður að gefa því tíma og vanda vel til verka.