Hollustuhættir

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 12:15:54 (786)

1997-10-23 12:15:54# 122. lþ. 16.3 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[12:15]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans og svör við þeim atriðum sem við ýmist spurðum um eða vöktum athygli á. Ég ætla aðeins að nefna í sambandi við 17. gr., um hollustuháttaráðið, sem verður að sjálfsögðu rætt vandlega í nefndinni, að hann velti því upp hvort eðlilegt væri að fulltrúi einnar ríkisstofnunar sæti í stjórn annarrar. Ég get alveg tekið undir að það er ekkert endilega eðlilegt og sjálfsagt mál og sjálfsagt að athuga það nánar hvaða fulltrúar kæmu til greina.

Ég vil þó aðeins minna hæstv. ráðherra á það sérkennilega fyrirkomulag sem var samþykkt, að vísu gegn andmælum nokkurra fulltrúa stjórnarandstöðunnar, í sambandi við stjórn Náttúruverndar ríkisins, að ég man ekki betur en þar eigi samgrh. fulltrúa, sem er kannski dæmi sem mætti líta til. Ég vil endurtaka það sem sagt var þá í þeirri umræðu að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt fyrirkomulag og miklu óeðlilegra en að einhver þátttaka sé þó á milli stofnana. En ég vil leggja áherslu á þetta. Það er sagt hér að vegna þess að stærsti hluti kostnaðar við eftirlit sé borinn uppi af atvinnuvegunum sé eðlilegt að atvinnuvegirnir eigi þarna aðild. En það er einmitt þess vegna sem ég hef svolitlar áhyggjur vegna þess að þeir reyna auðvitað að komast af með sem allra minnstan kostnað af atriðum sem þessum.