Þjónustukaup

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 12:33:41 (790)

1997-10-23 12:33:41# 122. lþ. 16.6 fundur 150. mál: #A þjónustukaup# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[12:33]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um þjónustukaup sem samið var af nefnd sem ég skipaði fulltrúum viðskrn., Samtaka iðnaðarins, Neytendasamtakanna og Samkeppnisstofnunar.

Á undanförnum árum hefur þörf á almennri lagasetningu sem tekur til seldrar þjónustu farið vaxandi. Þjóðfélagið tekur örum breytingum og verður flóknara og neytendur þurfa í síauknum mæli að treysta á þjónustu sem hinar ýmsu fagstéttir veita. Jafnframt verður að leggja áherslu á að aðstaða neytenda er önnur þegar um er að ræða kaup á þjónustu heldur en þegar um er að ræða kaup á vörum. Þegar samningur er gerður um kaup á þjónustu þá getur neytandi ekki skoðað það sem keypt er með sama hætti og þegar keyptur er hlutur. Mikilvægt er því að treysta réttarstöðu neytenda, einkum og sér í lagi þeirra sem ekki hafa yfir sérþekkingu að ráða. Við kaup á þjónustu reynir á mörg þau sömu atriði og koma upp í viðskiptum með vörur, t.d. ef keypt þjónusta reynist vera gölluð eða dráttur kann að verða á afhendingu hennar, o.s.frv. Í einstaka tilvikum hefur verið unnt að beita lögum um lausafjárkaup til að leysa úr ágreiningi undir slíkum kringumstæðum en ljóst er að þau lög veita ekki fullnægjandi réttarvernd fyrir neytendur. Lög um þjónustukaup hafa verið sett annars staðar á Norðurlöndum að Danmörku undanskilinni. Finnsk lög um þjónustukaup ganga einna lengst í vernd til handa neytendum en sænsk og norsk lög nokkuð skemur. Frv. þetta tekur mið af lagasetningu annars staðar á Norðurlöndum en danskt frumvarp sem samið var árið 1988 um þetta efni hefur enn fremur verið haft til hliðsjónar við samningu frv. Ákvæði þessa frv. um neytendavernd þegar keypt er þjónusta er nýmæli í löggjöf hér á landi.

Velta þjónustugreina hefur aukist um 10--20% að raunvirði á tímabilinu 1990--1995. Hlutur þjónustu af einkaneyslu landsmanna hefur jafnframt aukist, eða úr 35,4% af allri einkaneyslu á árinu 1990 og upp í 37,8% af einkaneyslu árið 1995. Enn fremur er þjónusta, sem veitt er í tengslum við fasteignir og sumarhús, stór útgjaldaliður enda hefur fasteignum fjölgað mjög á seinni árum og nauðsynlegt viðhald og endurbætur á þessum eignum þar af leiðandi stóraukist.

Nýjar þjónustugreinar hafa bæst við eins og geymsla á lausafjármunum þar sem engin eiginleg vinna er tengd hlutunum, t.d. búslóðageymsla, frystigeymslur o.fl. Af þessari ástæðu ná ákvæði frv. einnig til þjónustu sem felst í geymslu muna og er stunduð í atvinnuskyni gegn endurgjaldi.

Umsvif aukast sífellt á sviði seldrar þjónustu, svo og fjölbreytni hennar, og má nefna í því sambandi ráðgjafarþjónustu af ýmsu tagi. Um ýmsar þjónustugreinar gilda einnig oft á tíðum sérlög, sbr. t.d. lög nr. 34/1986, um fasteignasala, og lög nr. 117/1994, um ferðaskrifstofur. Aðalhvatinn að lagasetningu á sviði þjónustu hér á landi er hinn sami og í öðrum ríkjum sem sett hafa sérstök lög um þjónustukaup, þ.e. að leysa úr brýnni þörf á lagareglum til að greiða úr réttarágreiningi sem kann að rísa vegna kaupa á þjónustu. Að vísu geta skýr samningsákvæði seljanda og kaupanda þjónustu oft leyst úr vandamálum er upp kunna að koma en það er sjaldgæft að gert sé ítarlegt samkomulag um þau þjónustuverk sem á að vinna. Enn fremur er oft stuðst við ákvæði laga sem gilda um kaup á vöru þegar leysa á úr réttarágreiningi en takmarkaðar leiðbeiningar getur verið að finna í slíkum lagaákvæðum.

Að öllu framangreindu athuguðu þótti rétt að leggja fram frv. til laga um þjónustukaup.

Ég vil þá, með leyfi forseta, gera grein fyrir meginákvæðum þessa frumvarps.

Frumvarpið skiptist í tíu kafla sem hafa að geyma alls 41 grein auk athugasemda.

Í I. kafla er kveðið á um gildissvið frv. Samkvæmt 1. gr. gilda ákvæði þess um hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem seljandi þjónustu innir af hendi og er liður í atvinnustarfsemi hans. Samningar um þjónustu sem frv. þetta tekur til geta verið um vinnu sem seljandi lofar að framkvæma, t.d. viðgerð á hlut sem neytandi vill að sé lagfærður. Hvers konar viðgerðarþjónusta fellur því undir frv. svo sem bifreiðaviðgerðir, viðgerðir á heimilistækjum, o.s.frv. Ekki er hægt að gera tæmandi upptalningu á þeim mismunandi þjónustugreinum sem frumvarp þetta tekur til.

Í 2. gr. er að finna ýmsar mikilvægar undantekningar frá gildissviði frv. en meginatriði þeirrar afmörkunar er að ef um viðskipti aðila fer eftir ákvæðum laga um lausafjárkaup gilda ekki ákvæði þessa frv.

Í II. kafla er að finna ákvæði sem hafa þýðingu við samningsgerð um kaup á þjónustu.

Í III. kafla er fjallað um galla á seldri þjónustu og úrræði kaupanda í tilefni af því að þjónusta sem hann hefur keypt reynist gölluð. Þjónusta telst t.d. vera gölluð er árangur af því verki sem er unnið er ekki í samræmi við þær kröfur sem er eðlilegt að gerðar séu eða vikið hefur verið frá þeim almennu öryggiskröfum sem gerðar eru varðandi verkið. Um nánari skilgreiningu á gallahugtakinu vísast að öðru leyti til 9. gr. frumvarpsins og athugasemda við þá grein. Neytandi á rétt á að krefja seljanda þjónustu um að hann bæti úr göllum enda sé það án þess að það valdi honum verulegu óhagræði. Önnur úrræði sem neytanda eru tiltæk er að krefjast afsláttar frá uppsettu verði þjónustunnar eða krefjast riftunar ef um verulegan galla er að ræða. Neytandi sem vill bera fyrir sig galla verður þó að tilkynna seljanda um það innan sanngjarns frests frá því að hann vissi eða mátti vita að hin selda þjónusta væri gölluð. Í öllum tilvikum fellur þó réttur neytanda til þess að bera fyrir sig gallann innan tveggja ára frá afhendingardegi hinnar seldu þjónustu, nema að seljandi hafi með ábyrgðaryfirlýsingu tekið að sér ábyrgð í lengri tíma, sbr. 17. gr. frv.

Í IV. kafla er fjallað um það er áhætta af verki flyst. Þegar keypt þjónusta varðar hlut sem afhentur hefur verið seljanda þjónustu þá er meginreglan sú að áhættan flyst að nýju til neytanda þegar seljandi hefur skilað af sér verkinu og hluturinn er aftur kominn í vörslu neytandans.

V. kafli frv. er um það er dráttur verður á að ljúka þjónustu og heimildir neytanda til þess að rifta samningi eða krefjast skaðabóta vegna vanefnda seljanda þjónustu samkvæmt samningi þeim sem þá var lagður til grundvallar.

Í VI. kafla er að finna ákvæði um tjón á eignum neytanda þegar verk er unnið eða í beinum tengslum við það. Meginreglan er sú að seljandi þjónustu ber áhættu af því ef hlut er stolið eða hann skemmist af öðrum óviðráðanlegum orsökum eftir að neytandi hefur afhent seljanda hlutinn til viðgerðar, sbr. ákvæði 26. gr.

Í VII. kafla sem fjallar um verð er að finna nokkur ákvæði um þau meginatriði sem liggja til grundvallar þegar ákveðið er verð keyptrar þjónustu sem frumvarp þetta tekur til.

Í VIII. kafla er fjallað um rétt neytanda til að afpanta verk og um rétt seljanda til þess að krefjast greiðslu fyrir þá vinnu sem hann hefur þegar innt af hendi.

Í IX. kafla eru ákvæði sem veita leiðbeiningu hvernig með skuli fara þegar um er að ræða hluti sem neytandi sækir ekki, þrátt fyrir viðvaranir þar um. Undir slíkum kringumstæðum er seljanda heimilt að selja hlut á kostnað neytanda enda séu a.m.k. þrír mánuðir liðnir eða meira frá því að sækja átti hlutinn.

Í X. kafla er að finna ákvæði um það er tilkynning hefur verið afhent í samræmi við ákvæði laganna og henni seinkar eða kemst ekki til skila, þá glatar tilkynnandi ekki rétti til að bera slíka tilkynningu fyrir sig.

Í gildistökuákvæði er lagt til að sex mánuðir líði frá samþykkt frv. þar til lögin taka gildi. Þetta er lagt til í því skyni að nægilegt svigrúm gefist til þess að kynna efni þess fyrir neytendum svo og seljendum þjónustu. Einnig kunna ýmsir aðilar að vilja þróa og auka notkun staðlaðra samninga í viðskiptum sínum og mun þá gefast nokkur tími til slíks undirbúnings.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um efni frv. eða einstakar greinar þess á þessu stigi en legg til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.