Einkaleyfi

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 12:50:22 (792)

1997-10-23 12:50:22# 122. lþ. 16.8 fundur 153. mál: #A einkaleyfi# (EES-reglur) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[12:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, á þskj. 153.

Með frv. þessu er lagt til að unnt verði að öðlast viðbótarvernd fyrir einkaleyfi er taka til plöntuvarnarefna hér á landi, til samræmis við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 59/1997, sem kveður á um að fella beri inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1610/1996 um útgáfu viðbótarvottorðs um vernd plöntuvarnarefna.

Áður hefur verið lögfest hér á landi reglugerð ESB-ráðsins um viðbótarvernd fyrir lyf. Sú reglugerð er nú í 6. lið XVII. viðauka við EES-samninginn. Hún öðlaðist lagagildi hér á landi með breytingu á einkaleyfalögum með 24. gr. laga nr. 36/1996. Í frv. þessu er lagt til að hliðstæð reglugerð um plöntuvarnarefni fái lagagildi hér.

Reglugerðir þessar mæla fyrir um að sá sem hefur öðlast einkaleyfi fyrir lyfi eða plöntuvarnarefni geti sótt um viðbótarleyfi þannig að verndartími einkaleyfisins lengist um allt að fimm ár. Þessar reglur eru til komnar vegna þess að hinn raunverulegi eða virki gildistími einkaleyfa á þessum sviðum er oft mun styttri en annarra einkaleyfðra uppfinninga. Ástæðuna má rekja til þeirra umfangsmiklu tilrauna sem eru undanfari framleiðslu og markaðssetningar slíkra efna. Ekki er óalgengt að helmingur einkaleyfistímans, sem er 20 ár, líði án þess að heimilt sé að markaðssetja þessi efni. Með ákvæðum reglugerðanna er leitast við að nálgast hinn venjulega virka verndartíma uppfinninga á öðrum tæknisviðum.

Ákvæði um viðbótarvernd einkaleyfa er taka til lyfja öðlast ekki gildi hér á landi fyrr en 2. janúar 1998, sbr. 31. gr. laga nr. 36/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 91/1996. Þar eð reglur um viðbótarvernd einkaleyfa er ná til plöntuvarnarefna eru mjög svipaðar má telja eðlilegt að framkvæmd þeirra hefjist á sama tíma enda gert ráð fyrir þeim gildistökutíma í EES-ákvæðinu. Ef frv. verður að lögum er því gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi hinn 2. janúar 1998.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til iðnn.