Nýtingarmöguleikar gróðurhúsalofttegunda

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 15:01:14 (793)

1997-10-23 15:01:14# 122. lþ. 16.9 fundur 93. mál: #A nýtingarmöguleikar gróðurhúsalofttegunda# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:01]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um athugun á nýtingarmöguleikum gróðurhúsalofttegunda sem legið hefur frammi á þskj. 93.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta athuga til hlítar möguleika á að nýta gróðurhúsalofttegundir til eldsneytisframleiðslu og í hvers konar iðnaði eða iðnaðarferlum.``

Auk mín eru flm. þessarar tillögu hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Sigríður A. Þórðardóttir og Pétur H. Blöndal.

Tillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi en fékkst þá ekki útrædd né afgreidd og er því flutt að nýju. En við tillögumenn teljum vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum undirgengist í samfélagi þjóðanna í samstarfi við önnur ríki bæði á Vesturlöndum og víðar í heimi hér, svo og vegna þeirra fjárfestinga í stóriðju og orkufrekum iðnaði sem fram undan eru og verksmiðja sem eru að rísa hér á landi, að nauðsynlegt sé að athuga hvort unnt er að draga úr útblæstri þessara lofttegunda með því að taka þær til nýtingar. Raunar er það svo, herra forseti, að nokkrir innlendir aðilar og þó frekast í samstarfi við erlenda, hafa kynnt sér slíka möguleika að nokkru leyti.

Við teljum að auka þurfi þetta átak til að hraða þessum athugunum og koma því til leiðar að hér á landi verði dregið úr útblæstri þessara lofttegunda sem eru mengandi og geta valdið verulegum breytingum á lífsskilyrðum með því að nýta þær, t.d. í eldsneytisframleiðslu eins og nefnt er í tillögunni.

Þær athuganir sem fram hafa farið, herra forseti, víkja að ýmsum möguleikum og við teljum nauðsynlegt að þær upplýsingar sem hafa fengist úr þessum athugunum verði dregnar saman og landsmönnum og öðrum þeim sem hugsanlega mundu vilja nýta sér þessar hugmyndir verði gert kleift að nálgast þá þekkingu sem þar hefur orðið til og hrinda hugmyndunum í framkvæmd.

Í greinargerð með tillögunni sem lögð var fram með henni upphaflega kemur fram að á síðasta þingi hafa legið fyrir þingmönnum upplýsingar um verulega aukningu sem orðið hefur á síðustu árum og verður á næstu árum í útblæstri mengandi lofttegunda hér á landi. Á síðustu dögum hefur á þessu þingi komið fram skýrsla umhvrh. um loftslagsbreytingar þar sem fjallað er um þessar sömu upplýsingar og þær hafa verið endurmetnar. Þó svo að sýnt þyki af þeirri skýrslu að aukning þessara lofttegunda og áhrif þeirra séu ekki jafnmikil og virtist vera samkvæmt svari sama ráðherra á síðasta þingi við fyrirspurn eins hv. þm., þá er ljóst að hér er verulegur vandi og stórt viðfangsefni á ferðinni. Þess vegna er ljóst að með því sem hér er lagt til mætti hugsanlega draga verulega úr neikvæðum áhrifum á lífsskilyrði, mengun og öllum öðrum neikvæðum áhrifum sem ljóst er að menn sjá fram undan ef þessar lofttegundir fá að vera óbeislaðar eins og horfir í dag.