Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 15:47:35 (798)

1997-10-23 15:47:35# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:47]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um það sem hv. þm. sagði hér síðast þótt það væri nú í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal. Ég er sammála því að það má svo sannarlega taka á ýmsu í skattalögunum. En við erum að ræða frv. sem tekur á einu atriði í skattalögunum og það er rétt að halda sig við frv.

Það má kannski segja að hér hafi enn einu sinni komið fram sú hugsun að svo má böl bæta að benda á annað verra eins og einhver sagði, að tína nú til þessi miklu fríðindi alþingismanna sem eru víst á flestöllum vinnustöðum eða mjög mörgum vinnustöðum a.m.k. á vegum hins opinbera, að starfsmenn borgi fyrir matinn en ekki laun. Ég er ekki talsmaður þeirra fríðinda en það er erfitt að neita að taka þátt í þessu því maður þarf að næra sig. En ég kem auðvitað fyrst og fremst hingað upp til þess að mótmæla þeirri túlkun hv. þm. að það sé verið að ráðast á sjómannastéttina. Ég tók það sérstaklega fram í minni ræðu að það yrði að sjá til þess að afnám þessa afsláttar, sem ég tel mismunun, fari ekki fram án nokkurra umsvifa, heldur verði gefinn aðlögunartími. Og ég held að það væri nú réttara ef hv. þm. næði því að það væri þá frekar hægt að tala um árás á útgerðarmenn en sjómenn því það eru þeir sem eiga að greiða sjómönnum mannsæmandi laun. Það eru miklu fleiri en sjómenn sem þurfa að vinna fjarri heimilum sínum og þeir fá ekki þennan afslátt. Þar er það vinnuveitandinn sem tekur tillit til þeirra óþæginda sem starfsmennirnir hafa af því að vera ekki á heimilum sínum.