Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:13:49 (805)

1997-10-23 16:13:49# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:13]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú endilega leiðrétta þann misskilning sem mér finnst nánast vera kominn inn í umræðuna að ég sé að flytja þessa tillögu. Það er hv. þm. Pétur Blöndal sem flytur hana, en ég leyfði mér að hafa skoðun á málinu.

Það er hins vegar ekki hægt að gera það sem hv. þm. Kristján Pálsson var að ræða um, þ.e. að leggja til lagasetningu á Alþingi um laun sjómanna. Það verður að vera samningsatriði á milli vinnuveitenda og launafólks en ríkið komi að kjarasamningum og hefur auðvitað oft komið að kjarasamningum. Ég lagði áherslu á það í minni fyrstu ræðu eða þeirri einu ræðu í rauninni sem ég hef flutt í þessu máli, að áður en þetta gæti orðið eða um leið og þetta yrði, þá yrði ríkið, atvinnurekendur í sjávarútvegi og sjómenn að koma að samningaborði og leysa þetta mál þannig að sjómenn færu ekki slyppir út úr þeirri gerð.