Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:15:13 (806)

1997-10-23 16:15:13# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni það fúslega að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir er ekki flutningsmaður að þessari lagabreytingu, en hún er eigi að síður eindreginn stuðningsmaður eins og komið hefur fram í umræðum.

Það má vel vera að ekki sé hægt að setja það í beina lagasetningu að útvegsmenn greiði einhverja ábót sem mundi mæta þessum kostnaði, þeim fjárútlátum sem fylgja þessari skattaívilnun. Eigi að síður get ég ekki séð annað en að ríkisvaldið og Alþingi gæti komið því við í gegnum þau sjóðakerfi sem tilheyra þessum atvinnurekstri og við vitum að er notaður með mörgu móti. Ég ætla ekki að fara út í neinar lagaflækjur um það hvernig hægt er að gera þetta. Það hlýtur að vera sérstakt áhugamál þeirra sem vilja endilega ná sjómannaafslættinum út úr skattkerfinu að finna þær leiðir, en ég trúi þó því sem mér finnst ég hafa heyrt að flutningsmaður og stuðningsmenn vilji í sjálfu sér ekki taka þetta beint af sjómönnum heldur að þeim verði bætt það upp einhvern veginn öðruvísi og að þeir finni þá þær leiðir. Það sem er tryggast í dag er náttúrlega að halda því afsláttarkerfi sem er við lýði því að það er engin trygging fyrir neinu öðru í staðinn fyrr en þá að búið er að finna leið og menn hafa sæst á hana.