Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:17:38 (807)

1997-10-23 16:17:38# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:17]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að við getum öll verið sammála um að það er löngu kominn tími til að taka alvarlega til í skattkerfinu og við vitum að miklir fjármunir fara fram hjá skattinum. En það er sérkennilegt að þegar loksins á nú að fara að taka til, þá verða sjómenn fyrstir fyrir.

Ég vil minna hv. 16. þm. Reykv. á að fyrir nokkrum árum voru lögfest ákvæði þar sem þeim sem keyptu hlutabréf var veitt veruleg skattaívilnun og hver voru rökin? Rökin voru þau að menn væru þar með að leggja fjármuni sína til atvinnuveganna eins og það hét og í rekstur þjóðfélagsins.

En ég vil spyrja: Hvað eru sjómenn að gera? Ég er ansi hrædd um að þeir leggi eins myndarlegan skerf til þjóðfélagsins og þeir sem eru að versla með hlutabréf. Ég man ekki eftir að menn sæju neinum ofsjónum yfir þessum skattaívilnunum á sínum tíma. Ég minnist þess ekki.

Ég hlýt að lýsa því yfir að þrátt fyrir að ég hlusti oft á málflutning hv. 16. þm. Reykv. þegar kemur að efnahagsmálum, og fyrir kemur að ég er honum hjartanlega sammála, hlýt ég að hafa efasemdir um að skynsamlegt sé að styðja þetta frv. eins og það er fram lagt. Það eru ekki rök fyrir leiðréttingu á lögum að þau lög sem fyrir eru séu misnotuð. Ef fram fer alls kyns subbuskapur í framkvæmd laganna þarf að leiðrétta það. Það er engin spurning. Rök hv. flm. eru hins vegar dálítið sérkennileg þar sem hann er að bera saman fjarvistir sjómanna og langferðabílstjóra frá heimilum sínum. Ég er ansi hrædd um að langferðabílstjórar eigi notalegri vist og styttri frá heimilum sínum en sjómenn sem eru vikum saman fjarri heimilum sínum og þó oft blási á langferðabílstjóra þá er ég ansi hrædd um að það blási harkalegar á sjómannastéttina.

En það er athyglisvert að það sem sjómenn heyra frá okkur stjórnvöldum og hinu háa Alþingi, er ekki upplífgandi þessa dagana. Við stöndum frammi fyrir því að uppi eru hugmyndir um að leggja Sjómannaskólann í rúst, reka nemendur í sjómennsku út úr hinu gamla húsi sem þeir fengu upphaflega til þess að reka sinn skóla og nú kemur sá annars ágæti 16. þm. Reykv. með þetta frv. sem ég hefði óskað eftir að hann hefði ekki flutt. Mér þykir satt að segja mjög slæmt að frv. skuli hafa komið fram. Fullyrðingar eins og koma fram í greinargerð eru a.m.k. nýlunda fyrir mér og hélt ég þó að ég þekkti nokkuð til kjara sjómanna í gegnum tíðina. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áhafnir sumra fiskiskipa geta verið í landi stóran hluta ársins ...``

Ég spyr: Er þetta svo? Ég held að þetta séu nokkrar ýkjur þó að vitanlega séu leyfi manna orðin sem betur fer ögn skárri en þau voru þegar dæmi voru um að sjómenn --- eins og sá sjómaður sem ég þekki best sem náði því einu sinni að vera á sjó 351 dag eitt árið. Sem betur fer er þessi tíð liðin. En ég held að það sé sterklega að orði komist að áhafnir sumra fiskiskipa geti verið í landi stóran hluta ársins. (Gripið fram í.) Það er óþarfi að endurtaka það sem hv. 10. þm. Reykn. Kristján Pálsson, sagði áðan og ég skal ekkert vera að endurtaka það. Hann þekkir mjög vel til þessara mála. En það er kannski ekki oft gert að minna hv. þingheim á að það er kuldaleg tilvera, hygg ég, í norðurhöfum. Við búum ekki við Miðjarðarhafið og sjómennska í norðurhöfum er allólík, held ég, sjómennsku víða annars staðar. Við höfum séð það margsinnis að menn þola þetta misvel, bæði andlega og líkamlega og það er ekkert leyndarmál. Það er ekki nema fyrir sterkustu menn að stunda þessa atvinnu. Og ég spyr hv. málflytjanda: Er hann ekkert hræddur um að það takist hreinlega ekki að manna skipin ef það á að fara að rýra hlut sjómanna, því það liggur fyrir að það ætlar enginn að bæta þeim þann kjaramissi sem hér er verið að tala um. Útgerðarmenn gera það ekki, það er alveg ljóst, og eru reyndar svo heiðarlegir að þeir eru búnir að lýsa því yfir. Ég spyr því: Hver ætlar að bæta sjómannastéttinni þessa kjaraskerðingu?

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykn., og ég þekki líka dæmi um það, að tekjur sjómanna eru afskaplega misjafnar og þær geta verið mjög litlar langtímum saman. Sem betur fer geta komið góðar skvettur, og þó það nú væri, þegar afli er með besta móti. En ég hefði af því verulegar áhyggjur að ungir menn nú til dags velji ekki þessa atvinnugrein nema þar sé að hafa allsæmilegar tekjur. Ég held að þessi vist sé ekki svo þægileg að menn leggi það á sig nú á tímum.

Ég vil að sjálfsögðu ekki koma í veg fyrir að þetta mál gangi til nefndar og hljóti eðlilega meðferð þingsins. En ef á að fara að standa í því að taka þessi hlunnindi af sjómannastéttinni, þá held ég að það mætti líta til fleiri hópa og svo sannarlega þeirra sem síður eiga skilið þau hlunnindi sem þeir fá. Ég get hins vegar ekki stillt mig um að verja hv. þingheim rétt eina ferðina. Hér fara menn alltaf að tala um hlunnindi þingmanna og hér hélt því einhver fram áðan að menn fengju hér ókeypis mat. Ekki veit ég til þess. Ég er látin borga minn mat hér. Ég vil bara að það upplýsist áður en það verður fréttaefni að hv. þingheimur fái ókeypis mat. Það er alltaf eitthvað nýtt sem maður heyrir úr þessum stóli.

Ég held að menn ættu að snúa sér að öðru þegar sjómannastéttin er annars vegar en að leggja niður skóla þeirra og rýra kjör þeirra. Ég held að menn ættu líka að efla lífeyrissjóð þeirra sem er með þeim lökustu í landinu. Kjör sjómanna eru ekkert til að hrósa sér af og menn gleyma því að þessi stétt stendur undir rekstri þessa þjóðfélags. Ég held að menn ættu að snúa sér að því að finna peningana þar sem hinir raunverulegu peningar eru. Menn hafa kannski ekki tekið eftir því að á borðum okkar liggur núna svar frá hæstv. iðnrh. þar sem upplýst er að búið sé að eyða rúmum 1,5 milljörðum í athugun á hugsanlegri verksmiðju á Keilisnesi, 1,5 milljörðum. Það má líka fara betur með peninga í þessu landi og þá væri kannski hægt að greiða sjómönnum sómasamleg laun. En við skulum ekki halda áfram þeirri iðju sem hér er höfð í frammi þessa dagana að gera allt sem hægt er til þess að skerða kjör sjómanna. Það tel ég að stéttin eigi ekki skilið.

(Forseti (ÓE): Það hefur verið haft eftir þekktum manni að hádegisverðurinn sé aldrei ókeypis og hann er það ekki hér í þinginu.)