Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:26:45 (808)

1997-10-23 16:26:45# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:26]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls til þess að andmæla því frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að þetta sé fullkomlega tilefnislaust frv. og reyndar engin ástæða til þess að leggja það fram. Það hefur verið margoft rætt hér í þinginu og það hefur komið fram mikil andstaða við þessa hugmynd. Mig rekur minni til þess að á síðasta landsfundi Sjálfstfl. hafi legið fyrir sem tillaga skattanefndar landsfundar Sjálfstfl. að leggja af sjómannaafsláttinn. Þessi mál voru ítarlega rædd á landsfundi flokksins, m.a. af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sem kvað þetta mál sem betur fer rækilega í kútinn. Þar var það tekið til meðhöndlunar og fellt þannig að það er stefna Sjálfstfl. eins og hefur alltaf verið að standa vörð um sjómannaafsláttinn og þess vegna er ekkert óeðlilegt að við hér fjölmargir þingmenn flokksins komum upp og verjum þá stefnu Sjálfstfl. í skattamálum að viðhalda sjómannaafslættinum eins og verið hefur.

Ég var einn þeirra þingmanna sem tók þátt í því fyrir nokkrum árum að endurskoða skattalögin eins og þau sneru að sjómannaafslættinum. Þetta var mjög vandasöm, erfið og viðkvæm umræða. Í ljós kom, þegar menn fóru að skoða þetta, að þarna eins og sums staðar annars staðar í skattamálunum hafði átt sér stað ákveðin misnotkun. Það var farið ofan í þau mál mjög rækilega, að hluta til í samstarfi við samtök sjómanna, en að sjálfsögðu á ábyrgð þingmeirihlutans sem þá starfaði í þinginu og niðurstaðan varð sú að okkur tókst að mínu mati að laga þessi ákvæði miklu betur en áður hafði verið þannig að þau eru miklu skaplegri, réttlátari og eðlilegri en verið hafði.

Það eru mjög margvísleg rök fyrir því að hafa sérstakan sjómannaafslátt í skattkerfinu. Hv. þingmenn sem hér hafa talað á undan mér eins og hv. þm. Kristján Pálsson og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hafa farið mjög rækilega yfir þetta. Það er í sjálfu sér engin þörf fyrir mig að endurtaka þeirra röksemdir. Ég tek einfaldlega undir þær. Ég held að íslenskir sjómenn séu ekkert of sælir af þessum kjörum sínum eða öðrum. Þeir starfa eins og menn vita við mjög erfiðar og hættulegar aðstæður í Norður-Atlantshafi og hafa sýnt og sannað að þeir eru verðir launa sinna og verðir þess að fá þessa umbun og þessa viðurkenningu af þjóðfélaginu fyrir það að standa undir þeim miklu og góðu lífskjörum sem hafa verið að byggjast upp í þjóðfélaginu. Það er eftirtektarvert að íslenskir sjómenn eru þeir afkastamestu í veröldinni.

Þegar við berum saman til að mynda afköst okkar við afköst fiskveiðiþjóða á borð við Norðmenn, svo ekki sé nú talað um Kanadamenn, þá sjáum við að afköst okkar sjómanna eru margföld á við afköst sjómanna þessara þjóða. Þó er það þannig í þessum ríkjum að þau telja ekki eftir sér að greiða sérstaka styrki til útgerðarfyritækjanna til þess að hægt sé að stunda þar sjávarútveg. Hér er það ekki þannig. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru að berjast heiðarlega á opinberum, almennum, alþjóðlegum mörkuðum og þurfa að hafa sig öll við til að geta staðist þann ágang sem felst í því að berjast við sjávarútvegsfyrirtæki milljónaþjóðanna sem eru studd með mörgum milljörðum króna á hverju einasta ári til að halda úti þar sjávarútveginum.

[16:30]

Þess vegna er það auðvitað mjög eðlilegt hjá þjóð sem byggir lífsafkomu sína á sjávarútvegi og er svo lukkuleg að sjávarútvegurinn er betur rekinn en alls staðar annars staðar almennt í heiminum, án ríkisstyrkja, að menn reyni að örva þá starfsemi með skattalegum aðgerðum af því taginu sem tryggja að hæft og gott fólk sé ávallt til staðar í þessum mikilvægu störfum. Við reynum með ýmsum skattalegum aðgerðum að örva fólk til starfa og þess vegna er það mjög eðlilegt. Við teljum það ekki eftir okkur að styðja við bakið á atvinnulífinu og starfsfólkinu með þessum hætti. Það er bara mjög eðlilegur hlutur og ætti auðvitað ekki að krefjast sérstakrar umræðu hér.

En ég ætlaði hins vegar aðeins að vekja máls á öðrum þætti sem hefur ekki ratað inn í umræðurnar hingað til en sem ég held hins vegar, virðulegi forseti, að eigi fullt erindi inn í þessa umræðu á þessum degi. Það er að í þessu frv. er ekki bara verið að rýra kjör sjómanna. Það er líka verið að ráðast á hagsmuni hinna dreifðu byggða. Hvað á ég við með þessu? Jú, það er auðvitað þannig að ef sjómannaafslátturinn væri afnuminn, þá kæmi það ekki bara sérstaklega niður á sjómönnum eingöngu heldur kæmi það ekki síður niður á lífsafkomu sjávarútvegsstaðanna vítt og breitt um landið. Hvort ætli afnám sjómannaafsláttarins hefði nú meiri áhrif, hér í Reykjavík eða til að mynda í Vestmannaeyjum? Hvort biði kaupmáttur fólks almennt og hlutfallslega meira tjón hér í Reykjavík eða í Vestmannaeyjum ef þetta yrði gert? Yrðu möguleikar fólksins í Reykjavík í heild sinni til þess að eyða peningum skertir, eða hvort mundi þess gæta meira í Reykjavík eða Vestmannaeyjum?

Það vill þannig til, virðulegi forseti, að við höfum um þetta mál tölulegar upplýsingar. Í svari hæstv. fjmrh. á síðasta löggjafarþingi við fyrirspurn hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, um þessi mál kemur þetta nefnilega fram. Þar kemur fram að það eru um 8.850 manns sem nutu þessa afsláttar á sl. ári eða árinu á undan og skiptingin er auðvitað eins og maður gat ímyndað sér mjög í samræmi við mikilvægi atvinnugreinarinnar sjávarútvegs fyrir einstök landsvæði.

Af því að ég nefndi hérna Vestmannaeyjar, þá er það þannig að þar njóta 600 manns sjómannaafsláttar. Og afslátturinn í því skattaumdæmi einu er um 110 millj. kr. sem fólk hefur þar með væntanlega til ráðstöfunar sem það ella mundi ekki hafa ef tillaga hv. þm. yrði samþykkt. Kaupmáttur fólks í Vestmannaeyjum yrði rýrður sem því næmi. Möguleikar atvinnulífsins til þess að dafna yrðu minni sem því næmi. Möguleikar fólksins á þessum stað til þess að nýta þessa peninga til annarra hluta væru minni sem þessu næmi. Því er það augljóst mál, virðulegi forseti, að þessi tillaga kæmi ekki bara niður á sjómannastéttinni. Hún kæmi líka niður á byggðunum með þessum hætti. Hún væri þess vegna hættuleg landsbyggðinni.

17,6% framteljenda í Vestmannaeyjum njóta sjómannaafsláttarins. 1,7%, 10 sinnum lægri tala, í Reykjavík. Og ég held, virðulegi forseti, að áður en menn a.m.k. afgreiddu svona tillögu frá sér, þá væri rétt að þeir skoðuðu þetta frá þessum sjónarhóli, hvaða áhrif þetta kynni að hafa úti í hinum dreifðu byggðum sem nú um stundir eiga meira undir högg að sækja heldur en nokkru sinni fyrr. Það fækkaði um á annað hundrað manns í Vestmannaeyjum á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Hvernig halda menn að það léki Eyjarnar ef þessi tillaga yrði samþykkt? Ég held að það þurfi í raun og veru ekki að svara þessari spurningu. Þetta er svo augljóst mál. Þess vegna, virðulegi forseti, af því að þetta mál fær sína þinglegu meðferð eins og sjálfsagt er og eðlilegt, held ég að það sé mikilvægt að þegar við ræðum þessi mál og köllum eftir athugasemdum og skoðunum fólks á því, sem væntanlega verður gert samkvæmt þinglegri venju, þá verði sérstaklega leitað eftir því í hinum dreifðu sjávarútvegsbyggðum hvaða áhrif þetta kynni nú að hafa á vöxt og viðgang viðskiptalífsins og atvinnulífsins á þessum stöðum og kaupmáttinn í heild hjá fólkinu þar. Ég held, virðulegi forseti, að niðurstaðan úr því gæti orðið ansi fróðleg.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mál sérstaklega. Ég kaus eingöngu að taka hér til máls til þess að velta upp þessum fleti málsins sem ég held að verðskuldi nokkra athygli. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í máli þeirra sem hafa viljað verja þennan sjómannaafslátt. Ég vek athygli á því að þessi umræða fór fram mjög rækilega fyrir 4--6 árum síðan og lögin voru þá tekin til verulegrar endurskoðunar, að mínu mati með góðum árangri, og þess vegna er algjörlega tilefnislaust og ótímabært að leggja þetta frv. hér fram.