Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 16:53:34 (811)

1997-10-23 16:53:34# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:53]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson sagði að ég hefði viðurkennt lág laun sjómanna. Ég viðurkenni ekki eitt eða neitt. Viðurkenning er yfirleitt á því að menn hafi haft rangt fyrir sér. Það hefur komið fram að sjómenn eru að meðaltali með 300 þús. kr. mánaðarlaun og það eru ekkert slæm laun, alls ekki. En ég hugsa að það sé hjá fáum stéttum jafnmikill launamunur og hjá sjómönnum. Sumir eru með afar há laun og aðrir eru með lök laun og þeir njóta ekki skattafsláttarins eins og skyldi.

Varðandi það að lágu launin þeirra hrökkvi ekki fyrir útgjöldum á við um fleiri, t.d. sú staða ef hjón eiga tvö börn og maðurinn vinnur úti eins og gengur og konan ætlar að fara að vinna úti. Ef konan ætlar að fara að vinna úti sem oft er hjá venjulegu fólki getur hún ekki dregið frá laununum sínum kostnað við barnaheimili sem getur hlaupið á tugum þúsunda á mánuði. Oft og tíðum er það harla lítið sem fólk ber úr býtum vegna þess að skattkerfið tekur ekki tillit til útgjalda sem menn hafa af því að stunda vinnuna. Þannig er skattkerfið einu sinni uppbyggt og ég er ekkert hrifinn af því.

Varðandi það hvort ég ætti við bankastjóra þegar ég talaði um fólk sem væri út um allan heim þá var það alls ekki, langt í frá. Ég átti við fólk sem er að selja fisk um allan heim, mjög duglegt fólk á vegum SH og ÍS sem er seljandi fisk út um allan heim. Ég átti við fólk sem er að selja plastkör fyrir Sæplast o.s.frv. um allan heim. Það er þetta fólk sem ég átti við og það er líka fjarri heimilum sínum þannig að ég átti alls ekki við bankastjóra.

Varðandi það að formaður LÍÚ eigi að ráða lagasetningu á Alþingi er ég alfarið á móti því.