Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 17:00:35 (816)

1997-10-23 17:00:35# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:00]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um sérstöðu Íslendinga, að við lifum á fiski. Ég vil benda honum á að aðrir Íslendingar vinna líka þörf störf, ekki síður en sjómenn. Ég vil nefna að kennarar og annað starfsfólk vinnur líka góð störf og mjög þýðingarmikil og þörf. Ég vil nefna að fólkið í frystihúsunum vinnur líka mjög þörf störf og að þeir sem eru að selja fiskinn vinna ekki síður þjóðþrifastörf heldur en sjómenn þannig að þetta er löng keðja og mjög flókin og við eigum öll undir því að hver og einn einasti maður vinni sitt starf að fullu.

Það hefur tekist að manna flotann. Það er ekkert vandamál. Menn fást á flotann í dag og þeir munu fást þó að sjómannaafslátturinn yrði afnuminn. Ég fullyrði það. Það er ekki vandamálið. Við þurfum ekki að styrkja þessa atvinnugrein sérstaklega umfram aðrar. En ég neita því að einhver hópur manna sé tekinn út úr og sagt að hann vinni einhvern veginn þýðingarmeiri störf heldur en aðrir. Ég veit ekki betur en t.d. flugmenn vinni mjög þýðingarmikil störf eða bílstjórar og fleiri og fleiri. Allir Íslendingar vinna meira og minna þýðingarmikil störf og menn eiga ekki að segja að ein stétt standi einhvern veginn undir efnahag þjóðarinnar.

Sumir hafa jafnvel fullyrt að það hve mikil áhersla er lögð á útgerð og sjómennsku á Íslandi haldi öðrum atvinnugreinum niðri. Það er ekkert gert fyrir hugbúnaðariðnaðinn t.d. þar sem þó eru líka unnin þýðingarmikil störf. Ég er á móti því, eins og ég hef getið um áður, að veita ákveðnum aðilum forréttindi, skattfrelsi, á kostnað allra hinna því að hinir borga skattana að sjálfsögðu fyrir sjómennina.