Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 23. október 1997, kl. 17:02:31 (817)

1997-10-23 17:02:31# 122. lþ. 16.11 fundur 36. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[17:02]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessi umræða er um margt athyglisverð. En í upphafi máls míns vildi ég aðeins geta þess að þegar talað var um að einhver þingmaður hefði rætt hér um að þingmenn hefðu frítt fæði, þá er rangt eftir haft vegna þess að ég gat þess sérstaklega þegar verið var að tala um skattamál að það væri margt annað sem þyrfti að skoða ef á annað borð ætti að taka á skattalögunum með tilliti til þeirra ívilnana sem í mörgum greinum leiða til óréttlætis og misræmis innan skattkerfisins og nefndi þá sem dæmi að hér erum við að borga 320 kr. fyrir máltíð eins og gerist víðast hvar hjá opinberum stofnunum. Ég gat þess þá sérstaklega að ríkisvaldið væri einn stærsti atvinnurekandi á þessu sviði, þ.e. í veitingahúsareksturinn. Við erum að borga 320 kr. fyrir máltíðina sem ætti eðli málsins samkvæmt á kosta á bilinu 600--1.000 kr. og það ætti að skattleggja þennan mismun sem hlunnindi. Þetta er skattskylt eins og svo margt annað.

En það sem komið er upp á yfirborðið nú þegar farið er að líða að lokum þessarar umræðu, er að hv. flm. kom inn á það að löggjafinn ætti ekki að skipta sér af kjarasamningum því það hefur margsinnis komið fram að hluti af sjómannaafslættinum er kjarasamningur. Hann er til kominn vegna þess að ríkisvaldið hafði ekki biðlund lengur á því að menn næðu saman og blandaði sér í deiluna. Það leysti deiluna með sjómannaafslætti og margsinnis hefur þetta gerst, ef sagan er lesin og það meira að segja má lesa það í greinargerð flm. hvað þetta tengist meira og minna kjarasamningum.

Þar með er hann kominn í hring og er þá komið að því sem hv. þingmenn hafa hér komið inn á að við eigum ekki að blanda okkur í kjarasamninga, sjómannaafslátturinn er til kominn vegna kjarasamninga og þess vegna væri eðlilegt að flm. mundi draga frv. sitt til baka. En það sem hann hins vegar hefur komið inn á og er mikil kórvilla er að ásókn manna í að reka frystitogara og að sækja þangað um borð sé sjómannaafslátturinn. Ásókn manna í að reka frystitogara versus frystihús er auðvitað sá að það er mikill munur á að geta keyrt flökunarvél í 23 tíma á sólarhring í stað sex eða sjö klukkutíma og í það heila kannski 30 daga, eða eiga frystihús í landi og geta ekki keyrt flökunarvélar nema einhvern tiltekinn tíma 40 stundir á viku og frá dregst laugardagur og sunnudagur en sjómenn vinna líka þá daga. Það virðist vera mjög fjarri huga manna að þeir vinna hvort sem það eru hátíðisdagar eða sunnudagar. Ég kom aðeins inn á það þegar við vorum að ræða um þetta í vor. Og, með leyfi hæstv. forseta, þegar þetta var rætt kom ég aðeins inn á þetta og var með dæmi um 400 þús. kr. túr á frystitogara af því að það kemur alltaf upp í umræðunni að þetta séu vel launaðir menn. Það má vel vera þegar litið er á krónutöluna í heild sinni. En þegar skoðað er hvað menn hafa fyrir unna klukkustund, þá kemur, eins og ég orðaði það, í ljós ef grannt er skoðað og tekin er meðalveiðiferð frystitogara sem er á bilinu 5--6 vikur og laun eru um 400 þús. kr. og reiknað er með að meðaltali 14 stunda vinnudegi, að þessir menn án þess að hafa nokkurt vaktaálag, helgidagaálag, hátíðis- eða tyllidagaálag eins og við þekkjum í landi, eru með í kringum 360 kr. á klukkustund. Þetta eru nú háu tekjurnar. Ég er ansi hræddur um að ef sjómannaafslátturinn yrði afnuminn og menn fara að skoða grannt sitt tímakaup, gengi erfiðlega að manna skipin og það mundi ganga líka mjög erfiðlega þó að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt að menn eigi bara að taka duglega í lurginn á þessum útgerðarmönnum og þeir eigi bara að borga það sem upp er sett, því kaupin gerast bara ekkert svona á eyrinni. Margt sem hér hefur verið sagt hefur ekki verið ígrundað og á það kannski við um þann sem hér stendur líka.

Samt sem áður, eins og ég kom inn á í upphafi, þá er þetta hluti af kjarasamningum og við eigum ekki að vera að hrófla við þessu og alls ekki á þessari ögurstund þar sem nú stefnir allt í mikinn ófrið milli sjómanna og útvegsmanna. Það er ekki til þess að liðka fyrir því máli að löggjafinn skuli nú vera að fjalla um þessi mál því að ég er alveg sannfærður um að þó að það gangi nú svo fram að samningar náist eftir margra vikna þóf, að sé litið til framtíðar og frv. þingmannsins hafi náð fram að ganga, sem ég veit að verður ekki, þá yrði auðvitað boðað annað verkfall á sama degi og þessi lög væru afnumin.

Varðandi skattfríðindi almennt, þá tek ég undir og skil vel ásetning flutningsmanns, hvað hann vill gera í þessu skattkerfi sem við búum við á Íslandi. Það eru allt of mörg göt í því kerfi, ég get alveg tekið undir það. Hins vegar andmæli ég því enn einu sinni að þarna skuli vera á garðinn ráðist og er það mjög furðulegt. Ég hef sagt það áður að ekki verður hjá því litið, hvaða sýndarrök hv. flm. kann svo að koma með um hið gagnstæða, að þetta er árás á sjómenn. Þannig er það og er eitt til að nefna að sjómannaafslátturinn er hluti af kjarasamningi.