Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:08:37 (825)

1997-11-03 15:08:37# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þessa þingfundar vekja athygli á því að þingflokkur jafnaðarmanna bað um utandagskrárumræðu, með vísan til 50. gr. þingskapalaga, í dag um gjaldskrárhækkanir Pósts og síma hf. Því miður var ekki orðið við þeirri beiðni en boðið upp á lengri umræðu á morgun í staðinn. Ég harma þessar málalyktir. Við vitum að eitt mikilvægasta hlutverk Alþingis Íslendinga er m.a. að tryggja lýðræði í landinu. Við alþingismenn og sérstaklega þingmenn stjórnarandstöðu gerum það með því að veita ríkisstjórninni og einstökum ráðherrum hennar virkt aðhald.

Í 50. gr. þingskapalaga er gert ráð fyrir því að þingmenn geti fengið tekið fyrir mál utan dagskrár með aðeins tveggja tíma fyrirvara. Hér er auðvitað um að ræða mál sem eru bæði svo mikilvæg og aðkallandi að rétt þykir að láta hina hefðbundnu dagskrá víkja fyrir þeim vegna þess að umræða um þau þoli ekki bið. Þá geta menn spurt hvort eitthvað hafi gerst í dag, núna í dag, sem kallar sérstaklega eftir umræðu þingsins utan dagskrár. Já. Við teljum að áform um stórfellda skattlagningu á almenning í landinu, skattlagningu sem á sér ekki nein fordæmi, sé tilefni til umræðna í dag. Við teljum einnig að framganga og embættisfærsla samgrh., sem hefur einkennst öðru fremur af valdhroka og yfirgangi þegar hann neitar að gefa fólkinu í landinu upplýsingar um forsendur fyrir hækkunum á gjaldskrá Pósts og síma hf. og þegar hann gefur þjóðinni þær villandi heimildir að ekki sé hægt að lækka utanlandssímtöl án þess að hækka innanbæjarsímtöl, sé tilefni til umræðna í dag.

Krafan um aukið og virkara lýðræði hefur verið meiri undanfarin ár en nokkru sinni fyrr. Við höfum brugðist við henni hér með því að þróa og bæta reglur okkar um þingsköpin. Þessar breytingar miða að því að styrkja aðhaldshlutverk Alþingis. Þess vegna lít ég svo á að synjun á utandagskrárumræðu um málefni Pósts og síma hér í dag sé skref aftur á bak.

Virðulegi forseti. Að lokum þetta: Á fundi þingflokksformanna tóku aðrir þingflokksformenn undir beiðni þingflokks jafnaðarmanna. Forseti leitaði eftir því við samgrh. að orðið yrði við beiðni þingflokksins en hann varð ekki við þeirri ósk. Þar sem ráðherrann hefur lagt mikla áherslu á að þetta mál sé flókið, fer ég þess á leit að ráðherrann leggi fyrir alþingismenn skriflega greinargerð á morgun um forsendur gjaldskrárhækkana Pósts og síma.