Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:18:56 (830)

1997-11-03 15:18:56# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir það með hæstv. utanrrh. að það hefði farið betur á því að umræðan hefði farið fram í dag og utanríkismál fengið morgundaginn. En því miður treystir hæstv. samgrh. sér ekki í umræðuna í dag og þess vegna verður hún líklega á morgun.

Við jafnaðarmenn höfðum óskað eftir því að þessi umræða færi fram í dag því að hér er stórmál á ferðinni. Ég kalla eftir svörum frá hæstv. samgrh. Mun hann leggja hér fram forsendurnar fyrir gjaldskrárhækkuninni eins og óskað hefur verið eftir? Hann hefur heilan sólarhring til þess að undirbúa sig þannig að hér geti farið fram málefnaleg umræða á morgun. Eins og kom fram hjá formanni þingflokks jafnaðarmanna þá er stórmál á ferðinni og ég tel fulla ástæðu til þess að við utandagskrárumræðuna á morgun verði fleiri viðstaddir heldur en hæstv. samgrh. Ég nefni t.d. hæstv. forsrh., hæstv. menntmrh. og hæstv. viðskrh., ég tel fulla ástæðu til að þeir verði viðstaddir umræðuna því að þetta er málaflokkur sem varðar þá alla og jafnvel ríkisstjórnina í heild. Því kalla ég eftir svörum við því hvort þessir ráðherrar verði ekki viðstaddir umræðuna og hvort við fáum greinargerð frá hæstv. samgrh. um forsendur þessarar skattlagningar sem ríkisstjórnin hefur lagt á almenning í landinu í gegnum Póst og síma frá 1. nóvember talið.