Utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:26:15 (833)

1997-11-03 15:26:15# 122. lþ. 17.91 fundur 69#B utandagskrárumræða um gjaldskrárbreytingar Pósts og síma# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:26]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta eru rangfærslur sem hæstv. samgrh. fór með hér áðan. Það hefur ekki staðið á okkur í þingflokki jafnaðarmanna að ræða ítarlega og lengi um málefni Pósts og síma, enda er af nógu að taka. Við óskuðum eftir snarpri, pólitískri umræðu utan dagskrár í dag og við erum reiðubúnir hvenær sem er að mæta hæstv. ráðherra, t.d. í kjölfar þess að hann leggi fyrir Alþingi skýrslu um forsendur í sambandi við þessa gjaldskrárhækkun. Við hræðumst ekki umræðu við hæstv. ráðherra. Hins vegar er eðli utandagskrárumræðu, og þetta er þannig umræða, að pólitísk umræða eins og við óskuðum eftir hér í dag, að geta átt sér stað með stuttum fyrirvara. Forseti féllst ekki á það og ráðherra féllst ekki á það þó svo að allir þingflokksformennirnir eins og hér hefur komið fram, eða a.m.k. flestir, væru á því. Það hefði líka hentað störfum þingsins að hafa umræðuna í dag.

Ráðherra fór sömuleiðis með fleipur þegar hann sagði að þingflokkur jafnaðarmanna ætti fulltrúa í stjórn Pósts og síma. Það er rangt. Ég er varaformaður þingflokks jafnaðarmanna. Stjórnarkjör eða stjórnarmenn í Pósti og síma hafa aldrei verið ræddir á þingflokksfundum í þingflokki jafnaðarmanna. Hvort hæstv. ráðherra eigi samtöl við formann Alþfl. eða einhvern annan þingmann varðandi þetta mál hefur ekkert með þingflokk jafnaðarmanna að gera. Ráðherrann skipar þessa stjórnarmenn. Þeir eru á hans ábyrgð. Hann velur þá. Og ef hann hefur valið eftir einhverju pólitísku litrófi, gott og vel, þá er það hans mál og á hans ábyrgð en ekki okkar. Þetta er dæmi um blekkingar hæstv. ráðherra sem kemur lúbarinn út úr þessari umræðu eftir að hæstv. forsrh. þurfti að snúa hann niður þegar hann var kominn utan vegar í sambandi við stjórn á sínu ráðuneyti. Það sést nú hver málflutningur þessa manns, hæstv. ráðherra, hefur alla tíð verið í þessu efni.