Upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:38:23 (841)

1997-11-03 15:38:23# 122. lþ. 17.1 fundur 62#B upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég geri hér að umtalsefni mál, sem fjallað var reyndar um í umræðu um störf þingsins fyrr á fundinum, sem er skattlagning ríkisstjórnarinnar í gegnum Póst og síma. Ég beini máli mínu til hæstv. viðskrh. vegna þess að ég treysti því ekki að hann verði viðstaddur utandagskrárumræðuna á morgun, þó svo að ég hafi farið fram á að ákveðnir ráðherra verði viðstaddir. Fyrirspurn mín snýr að nefnd sem skipuð var haustið 1995 til að gera tillögur að stefnumótun fyrir ríkisstjórnina um íslenska upplýsingasamfélagið næsta áratug. Þessi stefnumótun birtist í ritinu Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Þar er yfirmarkmiðið að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Er það með skattlagningu eins og nú hefur fallið á internetsnotendur og almenna símnotendur sem hann telur að aðalmarkmið þeirrar nefndar náist best --- með því að setja vegartálma á hraðbrautina inn í upplýsingasamfélagið eins og netið hefur verið kallað? Telur hann að það náist best með því að leggja byrðar á notendur netsins? Á nemendur í fjarnámi, á þá sem í námi og starfi nýta sér upplýsingatæknina í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar, svo vitnað sé í ritið sem fjallar um framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar. Telur hæstv. ráðherra að Íslendingar verði frekar í fararbroddi eftir þessa skattlagningu en áður? Telur hann að þessi vinnubrögð séu þessum markmiðum til framdráttar?