Upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:40:22 (842)

1997-11-03 15:40:22# 122. lþ. 17.1 fundur 62#B upplýsingasamfélagið og gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:40]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég sem viðskrh. hafði forgöngu um að setja þá vinnu af stað sem unnin var milli stjórnarflokkanna og reyndar var haft mjög víðtækt samstarf við aðila í atvinnulífinu, verkalýðshreyfingu og stjórnkerfið um þá vinnu. Niðurstaða af því starfi liggur fyrir og hefur verið gefið út. Það er rétt að við setjum okkur það markmið að vera í fararbroddi á þessu sviði í heiminum, sem ég trúi að við getum. Við verðum líka að hafa það í huga að þjónusta eða kostnaður við notkun veraldarvefsins á Íslandi, í samanburði við önnur lönd, hefur verið með því allægsta sem þekkist í heiminum. Ég veit þó ekki nákvæmlega hver kostnaðurinn er eftir þá breytingu sem núna hefur verið gerð --- því gjaldskráin hefur nú verið færð til á milli daga --- ég hef því ekki látið reikna það nákvæmlega út fyrir mig miðað við síðustu ákvörðun um breytingu á gjaldskránni hvaða áhrif þetta muni hafa. Þó hef ég þá trú að við Íslendingar getum boðið þessa þjónustu, eftir þessar gjaldskrárbreytingar sem eru boðaðar, á lægra verði en flestar aðrar þjóðir geta gert. Og það er auðvitað það sem við keppum að --- að geta boðið upp á þessa þjónustu á sem lægsta verði þannig að við séum samkeppnisfærir á þessu sviði við aðrar þjóðir heim og þannig verðum við í fararbroddi á þessu sviði um aldamót.