Flutningur Stýrimanna- og Vélskólans úr Sjómannaskólahúsinu

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:48:07 (847)

1997-11-03 15:48:07# 122. lþ. 17.1 fundur 63#B flutningur Stýrimanna- og Vélskólans úr Sjómannaskólahúsinu# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á fundi sem ég átti með forustumönnum skólanna, og hv. þm. var meðal fundarmanna, varð niðurstaðan sú að menn ætluðu að gefa sér tíma fram að áramótum til þess að velta fyrir sér öllum hliðum málsins. Sá tími er ekki liðinn þannig að málið hefur ekki verið afgreitt enn þá.

Hv. þm. nefndi að það mundi kosta a.m.k. 1,5 milljarða ef ekki hærri fjárhæð að flytja skólana. Ég vek athygli á því að 1,5 milljarðar jafngilda því að það yrðu a.m.k. byggð tvö hús á borð við Sjómannaskólann þannig að menn hljóta að velta fyrir sér hvaða tölur þeir nefna þegar þeir fjalla um þetta mál. Ég hef engan heyrt flytja neinn rökstuðning fyrir því að það muni kosta 1,5 milljarða að flytja þessa skóla ef til þess úrræðis yrði gripið. Menn verða að átta sig á því hvað yrði hægt að gera og byggja í skólakerfinu fyrir 1,5 milljarða og það eru slík stórhýsi að það dygði til þess að tvöfalda húsakost sem eru 6.700 fermetrar sem Sjómannaskólinn ræður þarna yfir þannig að menn eru að tala kannski um húsakost upp á 12--15 þúsund fermetra ef þeir eru að velta fyrir sé slíkum fjárhæðum. Svo er alls ekki. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að það kunni að vera unnt að haga rekstri og byggingarkostnaði í skólakerfinu með þeim hætti að spara mætti 750 millj. kr. með þessu. En málið hefur ekki verið skoðað til hlítar. Á fundi sem hv. þm. sat ásamt forustumönnum sjómanna varð niðurstaðan sú að menn ætluðu að gefa sér tíma fram að áramótum til að skoða málið og er sjálfsagt að við notum þann tíma og tökum síðan ákvarðanir í málinu.