Staða aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:59:55 (857)

1997-11-03 15:59:55# 122. lþ. 17.1 fundur 64#B staða aldraðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:59]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta er rétt að hafa í huga að opinber umsvif eru miklum mun minni hér á landi en er í nágrannalöndunum. Opinber umsvif eru talin vera um það bil 30% af landsframleiðslu. Þau eru langt yfir 50% á mörgum Norðurlöndunum, meðaltal í Evrópu er um það bil 40%. Þetta er þvert á það sem mjög margir halda.

Ein af ástæðunum er sú að minna hlutfall fer hér af verðmætasköpuninni til þessara málaflokka sem ég nefndi. Ég held að hæstv. ráðherra ætti ekki að hrósa sér neitt sérstaklega af því sem hæstv. ráðherra hefur gert gagnvart öldruðum. Við þekkjum mótmæli þeirra og við skulum geyma þá umræðu þar til síðar. Ég tel sérstaka ástæðu að draga þessar tölur fram og það sem má lesa út úr þeim þó að gert sé með fullum velvilja gagnvart ráðuneyti hæstv. ráðherra að staða þessa hóps er mun lakari en menn hafa kannski haldið hingað til. En umræðan gefur samt til kynna að þörf sé á betri samanburði og úttektum í því efni og það má geta þess að þingflokkur jafnaðarmanna vinnur einmitt að slíkri tillögugerð.