Einkaréttur ÁTVR

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:03:55 (859)

1997-11-03 16:03:55# 122. lþ. 17.1 fundur 65#B einkaréttur ÁTVR# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Sá dómur sem féll og hv. þm. vitnaði til hefur enga þýðingu fyrir stefnu íslenskra stjórnvalda. Það hefur ekki verið beðið eftir þessum dómi sérstaklega af okkar hálfu. (Gripið fram í: Verslunarráðið.) Verslunarráðið er ekki hluti af íslenskum stjórnvöldum þótt sumir haldi það. (Gripið fram í: Þingflokkur Sjálfstfl.) Staða málsins er sú að það er starfandi starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar til þess að fara yfir málefni sem snúa að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og reyndar fleiri lögum sem tengjast starfsemi þeirrar stofnunar. Þessi hópur hefur verið að störfum frá því fyrr á þessu ári og ég á von á því að hann geti skilað áliti áður en árinu lýkur.

Hvað varðar stjórn fyrirtækisins, þá mun þetta heldur engin áhrif hafa á stjórn fyrirtækisins en hún er skipuð til tiltekins tíma. Ef ég man rétt á að skipa stjórnina aftur eftir áramótin, þá sé tímanum lokið, en ég þori ekki alveg að fullyrða að mig minni rétt í þeim efnum.

Fleira held ég að sé ekki, virðulegi forseti, til að svara. Ég vil þó geta þess að vegna þessa dóms sem út af fyrir sig er athygli verður, þá er það álit þeirra sem að þessum málum vinna í Svíþjóð, en dómurinn á við mónópólið í Svíþjóð, systembolaget, að það sé mjög erfitt að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru af dómnum og halda jafnframt úti starfseminni allt að því óbreyttri.