Einkaréttur ÁTVR

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:05:51 (860)

1997-11-03 16:05:51# 122. lþ. 17.1 fundur 65#B einkaréttur ÁTVR# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru út af fyrir sig nokkur tíðindi að hæstv. fjmrh. skuli lýsa því yfir að þetta skipti engu máli, þessi dómur hafi enga þýðingu fyrir stefnu stjórnvalda hér, þó svo að hann staðfesti þá ætlan Norðurlandanna sem var m.a. af þeirra hálfu sett inn í sérstakan fyrirvara við gerð EES-samningsins að þær áskildu sér rétt til að halda áfram áfengiseinkasölum sem hluta af sinni heilbrigðisstefnu, þegar þetta hefur nú verið staðfest fyrir Evrópudómstólnum, þá hafi það ekkert gildi, enga þýðingu. Ég hefði átt von á því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. teldi það a.m.k. innlegg í málið að nú er ekki lengur ástæða til að óttast að endalausar kærur Verslunarráðsins á okkur hafi mikil áhrif hvað þetta varðar. En það er ljóst að Verslunarráðið er með nokkur kærumál í gangi eins og venjulega á ÁTVR og önnur ríkisfyrirtæki fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.

Hvað varðar stjórnina, þá fagna ég því nú að gildistími hennar sé þó ekki lengri en til næstu áramóta og ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskipa stjórnina hressilega (Forseti hringir.) því það er auðvitað alveg ljóst, herra forseti, að það var komið aftan að mönnum með því að skipa þessa stjórn með þeim dulbúningi að um einhvers konar rekstrarstjórn fyrir fyrirtækinu ÁTVR væri að ræða (Forseti hringir.) þegar í ljós kemur að þetta er útfararstjórn, stjórnin er að leggja fyrirtækið niður.