Lokun Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:08:49 (862)

1997-11-03 16:08:49# 122. lþ. 17.1 fundur 66#B lokun Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:08]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín varðar ákvarðanir þýskra stjórnvalda að loka Goethe-stofnuninni í Reykjavík, sem er eina starfandi stofnun sinnar tegundar hér á landi. Hefur þessi fyrirætlan þegar vakið mikla athygli og sætt mótmælum af margra hálfu hér innan lands. Má í því sambandi vísa til margra undirskriftasafnana og eins er líka í gangi almenn undirskriftasöfnun sem beinist gegn þessari ákvörðun og áskorun um að hún verði ekki framkvæmd.

Mér er kunnugt um að hæstv. utanrrh. tók þetta mál upp við starfsbróður sinn þýskan í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september sl. Mér er hins vegar ekki kunnugt um viðbrögð af hálfu þýskra stjórnvalda. Það eru fleiri sem hafa látið þetta mál til sín taka. Hér var sendinefnd frá Bundestag, þýska þinginu, í síðasta mánuði og komið var á framfæri við sendinefndina upplýsingum um þetta, m.a. af þeim sem hér talar. Í fréttatilkynningu sem þessi þingmannanefnd sendi frá sér 16. október sl. er eindregið varað við þessum áformum og þau talin í rauninni gróf móðgun við Ísland og Íslendinga og boðaðar aðgerðir innan þýska þingsins til þess að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld þannig að ekki komi til framkvæmda.

Ég vil sem sagt, virðulegur forseti, spyrja hæstv. utanrrh. hvort viðbrögð hafi komið frá þýskum stjórnvöldum og hvort íslensk stjórnvöld muni beita sér frekar í málinu. Mér er það vissulega ljóst að Þjóðverja er ákvörðunarvaldið í þessum efnum, en þetta varðar mjög samþykkt ríkjanna eins og margoft hefur komið fram á undanförnum vikum.