Lokun Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:12:55 (864)

1997-11-03 16:12:55# 122. lþ. 17.1 fundur 66#B lokun Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:12]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Svar hæstv. utanrrh. flytur okkur mjög dapurleg tíðindi sem hljóta að valda miklum vonbrigðum hjá Íslendingum sem láta sig samskipti við Þýskaland varða. Það er illt til þess að vita ef þýsk stjórnvöld fást ekki til þess að hlusta á aðvörðunarorð og hvatningar sem ekki einungis koma héðan frá Íslandi heldur einnig frá fulltrúum þýska þingsins þar sem um er að ræða fulltrúa úr öllum flokkahópum. Hér var um að ræða sendinefnd sem var skipuð fulltrúum úr þeirri nefnd þingsins sem fjallar um samskipti við Norðurlöndin og mér er kunnugt um að það hefur verið lögð áhersla á það af þeim aðilum sem ég nefndi áðan (Forseti hringir.) að þessari ákvörðun yrði ekki fylgt eftir.

Ég skora á hæstv. utanrrh. og íslensku ríkisstjórnina að reyna að koma þeim boðum (Forseti hringir.) með skýrari hætti en hingað til þýskra stjórnvalda að þessi ákvörðun, ef hún stendur, er mjög alvarlegt mál fyrir samskipti landanna.