Vopnalög

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:24:01 (867)

1997-11-03 16:24:01# 122. lþ. 17.13 fundur 175. mál: #A vopnalög# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:24]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til vopnalaga. Hér er um að ræða heildarendurskoðun á löggjöf um skotvopn og önnur vopn, sprengiefni og skotelda. Frv. er ætlað að leysa af hólmi eldri og brotakenndari löggjöf á þessu sviði, einkum þó lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda frá 1977 sem tekur ekki nægjanlega mið af aðstæðum í dag auk þess sem reglur skortir um önnur vopn en skotvopn. Frv. er afrakstur af starfi nefndar sem ég skipaði í febrúarmánuði árið 1995 til að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda.

Við gerð frv. hafði nefndin til hliðsjónar gildandi reglur á þessu sviði á öðrum Norðurlöndum. Einnig átt nefndin samstarf við helstu samtök hér á landi sem eiga hagsmuna að gæta á sviði vopnalöggjafar. Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir efnisskipan frv. og helstu nýmælum sem þar eru lögð til.

Í I. kafla frv. er fjallað um gildissvið þess og í II. kafla um framleiðslu, innflutning, útflutning og verslun með skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda. Umfangsmesti hluti frv. er III. kaflinn sem fjallar um meðferð skotvopna og skotfæra. Sérreglur um meðferð sprengiefnis eru í IV. kafla og í V. kafla er fjallað um meðferð annarra vopna en skotvopna. Loks eru í VI. kafla ákvæði um meðferð skotelda og í VII. kafla er fjallað um refsingar fyrir brot á lögunum, upptöku eigna og fleira.

Margvísleg nýmæli eru ráðgerð í frv. sem stefna að því að marka eftirliti með vopnaeign og vopnanotkun skýrari ramma en verið hefur. Við samningu frv. var m.a. byggt á þeim forsendum að vopn eru hættuleg tæki sem almennt ber að takmarka að menn hafi um hönd nema í undantekningartilvikum þegar það styðst við gild rök eða atvinnuhagsmunir krefja. Einnig var haft í huga að það er þekkt vandamál um allan heim að vopn tengjast glæpum og takmarka verður vopnaeign svo sem kostur er með tilliti til þeirrar staðreyndar.

Loks var haft að leiðarljósi að samræmi þarf að vera á milli löggjafar í landinu sem varðar meðferð skotvopna. Með frv. er lagt til að það taki til allra vopna en ekki skotvopna eingöngu eins og þau lög sem frv. er ætlað að leysa af hólmi. Einnig er í 1. gr. frv. að finna skilgreiningu á hugtakinu vopn. En fram til þessa hefur ekki verið við neinar slíkar skilgreiningar að styðjast í lögum.

Frv. byggir á því að önnur skotvopn verði ekki heimil í landinu en þau sem heimilt er að nota við veiðar samkvæmt veiðilöggjöfinni. Frá því eru þó heimilaðar undantekningar vegna söfnunar á skotvopnum sem hafa ótvírætt söfnunargildi. Í frv. er söfnun skotvopna mörkuð skýrari takmörk en gilt hafa þar sem nokkuð er um að einstaklingar hafi komið sér upp verulegu magni nýrra skotvopna í skjóli söfnunargildis.

Það nýmæli kemur fram í 8. gr. frv. að heimilt verður að reka skotvopnaleigu að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Kæmi slík starfsemi til viðbótar verslun með skotvopn en ráðgert er að sömu reglur gildi um rekstur skotvopnaleigu og gilda um skotvopnaverslun. Var það álit nefndarinnar sem samdi frv. að starfsemi sem þessi væri til þess fallin að draga úr skotvopnaeign hér á landi. Í öryggisskyni er ráðgert að í reglugerð verði síðan ákvæði um að tiltekinn tími þurfi að líða frá því að beiðni um leigu er lögð fram þar til skotvopn er afgreitt. Í samræmi við þessa tilhögun verður skotvopnaleyfi ekki bundið við það að eiga skotvopn. Þannig verður mögulegt ýmist að leigja skotvopn eða fá að láni með öðrum hætti. Er þetta liður í þeirri stefnu að draga úr skotvopnaeign.

Í frv. er lagt til að dómsmrh. fái heimild til að kveða í reglugerð á um skipulag og framkvæmd við iðkun á skotfimi og hvaða skotvopn verði leyfð í því skyni. Er þetta mikilvægt þar sem í skjóli þessarar starfsemi er lagt til að heimilt verði að flytja inn skammbyssur. Ráðgert er að heimildir í þessu sambandi verði bundnar við skotfélög sem viðurkennd verða af ríkislögreglustjóra að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Í reglugerð á grundvelli frv. mun einnig koma fram nákvæmlega hvaða greinar skotíþrótta verða stundaðar og með hvaða skotvopnum. Um leið þýðir það að önnur skotvopn verða ekki flutt til landsins. Ég vil leggja áherslu á að með þessu fyrirkomulagi verður loks komið böndum á innflutning og sölu skammbyssna sem erfitt hefur verið að stemma stigu við þar sem fastar reglur hefur skort fram til þessa. Frv. kveður á um samræmda landskrá fyrir skotvopn en með því má ætla að allt eftirlit með skráningu og meðferð skotvopna verði virkara.

Eins og ég hef nefnt er V. kafli frv. sérstaklega helgaður öðrum vopnum en skotvopnum. Þar eru sérstök ákvæði um hnífa og önnur árásarvopn. Er hér í fyrsta sinn tekið heildstætt á öllum vopnum í landinu. Í 30. gr. er lagt til að lögfest verði víðtækt ákvæði um bann við vopnum þessum og má finna upptalningu á þeim í ákvæðinu. Fram til þessa hafa lögin um skotvopn, sprengiefni og skotelda ekki náð yfir hnífa og önnur árásarvopn. Fyrst árið 1988 voru nokkur ákvæði sett í reglugerð á grundvelli skotvopnalaganna. Eru þessi ákvæði nú færð inn í löggjöfina en með ýmsum breytingum þó. Einnig eru heimildir í frv. til upptöku á hnífum og öðrum slíkum vopnum en á undanförnum árum hafa gengið dómar um að gildandi löggjöf veiti ekki nægilega skýrar heimildir í því efni.

Þá vil ég geta þess að í frv. er lagt til að ríkislögreglustjóri taki við þeim stjórnsýsluverkefnum á sviði skotvopnalöggjafar sem dómsmrh. hefur farið með samkvæmt gildandi lögum.

Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.