Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:11:48 (874)

1997-11-03 17:11:48# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:11]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. um að fella úr gildi lög um söfnunarkassa. Í máli hv. 1. flm., Guðrúnar Helgadóttur, kom fram að umfang þessara fjáröflunarspila á Íslandi er alveg ótrúlegt. Í svari við fyrirspurn minni á síðasta þingi til hæstv. dómsmrh. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir vitnaði í kemur fram að velta happdrætta og getrauna á árinu 1995 var rúmlega 3,8 milljarðar. Þar af fóru 1,8 milljarðar í vinninga. Þessu til viðbótar koma svo söfnunarkassarnir sem veltu á tímabilinu júlí 1995 til júní 1996, þ.e. á einu ári, mjög háum upphæðum. Innkoman úr þessum kössum samkvæmt svari hæstv. dómsmrh. var 993 millj. kr. en þá eru ekki taldir með vinningar sem eru taldir nema um 90% af veltunni, sem segir okkur að það hafa um 10 milljarðar runnið í gegnum kassana á þessu eina ári og 9 af þeim 10 milljörðum farið til baka í vinninga. Þetta eru náttúrlega ótrúlegar tölur og rétt að maður nái að melta þær þegar deilt er með mannfjölda þjóðarinnar í þessar háu upphæðir. Samtals hafa því Íslendingar sett um 13,8 milljarða í happdrætti, getraunir, söfnunarkassa og fleira á þessu eina ári. Það gerir um 50 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu, allt frá nýfæddum upp í elstu gamalmenni, en til baka hafa komið 10,8 milljarðar kr. í vinningum. Nettóeyðslan er því um 3 milljarðar eða um 11 þús. kr. á hvert mannsbarn sem gerir 55 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Eru þá ótalin ýmis önnur happdrætti sem ekki koma fram í svari hæstv. dómsmrh. enda sjálfsagt ekki undir eftirliti ráðuneytisins.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar og fréttir berast af vanda fjölda Íslendinga vegna spilafíknar, er eðlilegt að spurt sé: Hvernig á að bregðast við? Flm. þessa frv. vilja bregðast við með því að fella úr gildi lög um söfnunarkassa eða með öðrum orðum að banna þá. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir færði hér rök fyrir því sjónarmiði.

Þá er spurningin: Af hverju á að banna þessa söfnunarkassa frekar en aðra sambærilega fjáröflun? Það kom fram í ræðu hv. flm. að það sé kannski fyrst og fremst vegna þess að börn og unglingar noti þetta. Þó það segi reyndar í lögunum að börnum undir 16 ára aldri sé óheimilt að spila í þessum kössum þá er það sjálfsagt gert í verulegum mæli. Í bréfi sem rekstraraðilar þessara kassa sendu þingmönnum í dag segir, með leyfi forseta:

,,Börnum yngri en 16 ára er óheimilt að spila í söfnunarkössunum. Rík áhersla er lögð á það við rekstraraðila að fylgja þeim fyrirmælum eftir og áberandi merkingar þar um eru á hverjum stað. Vinningar eru ekki greiddir út til barna undir 16 ára aldri. Eftirlitsmenn íslenskra söfnunarkassa fylgjast vel með að reglur séu virtar. Kassarnir eru fjarlægðir ef um ítrekuð brot er að ræða.``

[17:15]

Þarna er nú kveðið nokkuð fast að og ég er ekki viss um að þeir sem undir þetta skrifa geti alveg staðið við þetta því að auðvitað hefur maður oft séð börn undir 16 ára aldri vera að fikta í þessum kössum.

Það er reyndar svo að þessum blessuðum börnum stendur ýmislegt fleira til boða heldur en söfnunarkassarnir á þessum vettvangi, t.d. skafmiðar, lottó, getraunir, bingó og alls konar happdrætti. Nú færast sífellt í vöxt alls konar happdrættisleikir hjá verslunum og fyrirtækjum og allt stendur þetta börnum og unglingum opið að því er ég best veit. En það réttlætir auðvitað ekki að ekki sé farið eftir lögum um söfnunarkassana varðandi aldur þeirra sem vilja taka þátt í leiknum.

Hér kemur líka fram að eigendur og rekstraraðilar þessara tækja eru Rauði krossinn, Landsbjörg, Slysavarnafélagið og SÁÁ og það kom fram í svari við fyrirspurninni sem ég nefndi áðan frá síðasta þingi að tekjur SÁÁ af söfnunarkössum hefðu verið um 55 millj. Sumir hafa haldið því fram að það væri ákveðinn tvískinnungur hjá þessum virðulegu samtökum og virðingarverðu að vera að taka þátt í slíkum rekstri á sama tíma og samtökin hafa í gangi meðferð fyrir þá sem missa stjórn á sér í spilamennskunni, þ.e. svokallaða spilafíkla. Sú starfsemi SÁÁ er mjög virðingarverð og ágæt og reyndar skilst mér að SÁÁ sé eini aðilinn sem veitir þessu fólki aðstoð til að taka á sínum vandamálum og losna við spilafíknina. En það er nú svo að ef SÁÁ ekki tæki þátt í rekstri þessara kassa þá hefði sjálfsagt einhver annar fengið þennan gróða og kannski hefði SÁÁ þá ekki haft möguleika á að veita þessa þjónustu. En auðvitað er það rétt að það lítur svo sem ekki allt of vel út að vera með annarri hendinni að græða á þessu og hinni hendinni að vara fólk við þessu.

Ég er sammála því og tel það reyndar nauðsynlegt að leita leiða til að draga úr spilafíkn manna sem veldur ómældum erfiðleikum hjá fjölda einstaklinga og fjölskyldna. Ég efast ekki um góðan hug þeirra sem flytja þetta frv. og að þeir vilja vel, en ég hef efasemdir um að það leysi vandann að banna þennan eina þátt spilaflórunnar. Ég held að það verði að taka heildstætt á þessum málum. Nú fer þetta frv. væntanlega til allshn. þar sem það fær vonandi vandaða umfjöllun og verður borið undir þá sem hlut eiga að máli. Og verði niðurstaðan sú að leið finnist til að draga úr spilafíkn manna, þá er vel.