Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:32:38 (878)

1997-11-03 17:32:38# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:32]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er bókstaflega rangt hjá hv. þm. Hann er að flytja frv. um hið gagnstæða, að taka tekjurnar af þessum samtökum. Hann er ekki að flytja frv. um nýsköpun eða nýháttu, hvernig við berum okkur til í happdrættissamfélagi okkar. Hann er ekki að flytja frv. um það. Það er ekki orð um það. Það er bara um að leyfið falli niður. Það stendur þarna, allir geta lesið það. Hann hefur ekki flutt eitt einasta frv. um það að við eigum að taka upp nýja skipan mála um happdrætti eða spilakassa. En ég get alveg staðið með honum í því að það sé full þörf á því að gera það. Ég er ekkert að mæla með því, ég hef aldrei spilað í svona kassa og ég er ekkert að mæla með þeim. Það getur vel verið að þetta sé allt hið mesta böl. Það kann vel að vera en við höfum komið þessum hlutum þannig fyrir með réttu eða röngu. Við höfum ánafnað þessum samtökum þessa tekjumöguleika og við getum ekki gert það einhliða að svipta samtökin þessum tekjum.