Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:33:53 (879)

1997-11-03 17:33:53# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn láta þessi frv. sem við ræðum í dag ákaflega lítið yfir sér. Hvort um sig eru tvær greinar, örstuttar greinar, en við nánari skoðun er alveg ljóst að hér er um að ræða mjög veigamikil frumvörp. Ef frumvörpin yrðu samþykkt á eigin forsendum þeirra eins og hér er lagt til og ekkert annað gerðist, og frumvörpin gera ekki ráð fyrir neinu öðru, þá yrði stefnt í uppnám fjárhag eftirtalinna samtaka: Rauða kross Íslands, Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar.

Hér hefur verið minnst á, m.a. af hv. 1. flm. málsins, að hægt væri að nálgast þetta fjármagn með öðrum hætti. Ég skrifaði niður eftir hv. þm. að t.d. væri hægt að gera það með því að safna fjármagni með einhverjum öðrum hætti. Nú vil ég aðeins velta því fyrir mér hversu raunhæft það er að við færum út með einhverjar tombólur á hverju ári fyrir þessi samtök og næðum inn því fjármagni sem er gert núna með söfnunarkössum. Ég var að vísu ötull við það á mínum yngri árum að fara í hús og selja merki fyrir Slysavarnafélagið vestur í Bolungarvík. En ég óttast að sú aðferð sé ekki mjög líkleg til þess að útvega til ráðstöfunar eignaraðilanna 630 millj. kr. eins og kemur í ljós þegar við lesum svar við fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að er það fé sem rennur til þessara samtaka. Landsbjörg fær samkvæmt upplýsingunum úr þessu svari 66 millj. kr., Slysavarnafélagið 83 millj. kr., SÁÁ 55,4 millj. kr. og Rauði kross Íslands 425,7 millj. kr. Virðulegi forseti. Við sjáum auðvitað í hendi okkar að ekki verða hristar fram úr erminni aðferðir við það að leggja þessum samtökum til álíka fjármagn. Þó að sölubörnin séu dugleg að ganga fyrir hvers manns dyr og selja merki þessara samtaka þá þarf heldur betur átak til þess að það tryggi 630 millj. kr. til þessara merku samtaka. Þó að ég skilji út af fyrir sig það sjónarmið sem að baki liggur, sem er sú hætta sem getur stafað af hvers konar spilafíkn, ekki bara vegna söfnunarkassa heldur hvers konar spilafíkn, finnst mér vera ótrúlegt ábyrgðarleysi að leggja fram frv. sem felur það í sér að svipta þessi samtök einhliða þessum tekjum án þess að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti eigi að leggja þeim til fjármagn í staðinn.

Ég hef eins og aðrir þingmenn fengið í hendurnar yfirlit yfir starfsemi aðildarfélaga Íslenskra söfnunarkassa. Við sjáum í hendi okkar af því yfirliti að auðvitað er um að ræða mjög veigamikinn þátt í fjáröflun og þar með starfsemi þessara samtaka. Ég veit að ég þarf ekki að fara yfir það hvað þessi félög eru að gera, við þekkjum það öll. Við vitum það að SÁÁ vinnur ómetanlegt starf. Við vitum að Landsbjörg og Slysavarnafélagið standa undir rekstri björgunarsveita allt í kringum landið og stunda margs konar forvarnastarf og við þekkjum margháttaða starfsemi Rauða kross Íslands. Ég veit að það er ekki vilji nokkurs hér inni að tefla í tvísýnu starfsemi af þessu taginu og þess vegna verð ég að játa að mér finnst skjóta skökku við að lesa frv. sem mér sýnist að ekki geti leitt til annars en þess að setja í algert uppnám starfsemi þessara gagnmerku samtaka.

Ég tek dæmi. Ef ég man rétt úr mínu starfi úr fjárln. Alþingis fær Slysavarnafélag Íslands frá Alþingi á fjárlögum 16 eða 17 millj. kr. Það kann að vera eitthvað hærra í dag. En við sjáum af þessu, virðulegi forseti, að það er svo óralangt í það að við getum til að mynda ráðstafað fjármagni af fjárlögum Alþingis, fjárlögum Íslands til þess að standa undir starfseminni í staðinn fyrir þær tekjur sem þau hafa af söfnunarkössunum.

Hv. þm. Guðjón Guðmundsson vakti athygli á öðru máli. Af hverju endilega bara söfnunarkassarnir? Hvað með annað það sem við höfum verið að leiða í lög, skafmiða og skyndihappdrætti, flokkahappdrættið, lottóið, getraunirnar, lengjuna, bingóið, happdrættisleikina o.s.frv. Er þetta ekki líka angi af einhverri spilafíkn, einhverri fíkn í spennuna, einhverri fíkn í að voga, leggja undir í þeirri von að maður fái meiri pening? Er þetta ekki allt hluti af þessu sama? Er þetta ekki allt þessi fíkn sem hv. flutningsmenn hafa áhyggjur af?

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram fyrr í umræðunni að sala á ávanabindandi efnum eins og áfengi og tóbaki hlýtur líka að vekja upp með okkur spurningar um siðfræði. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að starfsemi söfnunarkassanna byggði á veikleika einstaklinganna, sjúkleika einstaklinganna. En skilgreinir ekki SÁÁ áfengisnotkun af ákveðinni stærðargráðu sem sjúkleika, sem fíkn sem stafar af veikleika einstaklinganna eða sjúkdómum þeirra? Ef við föllumst á skilgreiningu hv. þm. og að ekki sé samrýmanlegt að að reka söfnunarkassa vegna þess að það byggi á veikleika einstaklinganna, sjúkleika einstaklinganna, getum við þá leyft það að við höfum hér stærðarinnar fyrirtæki sem leggja milljarða kr. í ríkissjóð og byggja á sjúkleika og veikleika einstaklinga? Hv. þm. sagði: Er ekki rétt þá að Siðfræðistofnun háskólans og guðfræðideildin merki sér einhverja kassa? Þá getum við auðvitað spurt hvort ekki væri rétt að sérmerkja brennvínsflöskur þannig að sala á íslensku brennivíni fari t.d. til þess að reka sjúkrahúsin og sala á einhverjum hvítvínstegundum fari þá í að leggja vegi o.s.frv.? Mér finnst, virðulegi forseti, að umræða af þessu tagi geti leitt menn ef menn vilja fylgja henni eftir, svona rökrétt, í óskaplegan vanda.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði og ég læt mér ekki detta annað í hug en þetta sé mælt af góðum hug og hv. þingmenn vilji að hlutur þessara góðu samtaka sé sem mestur en engu að síður er ómögulegt annað en draga þá ályktun að yrðu þessi frumvörp samþykkt eins og þau eru hér, eins og þau koma af skepnunni, og ekkert annað kæmi í staðinn, og það er ekkert annað að finna í þessum frumvörpum, þá er alveg ljóst að starfsemi þessara mikilvægu samtaka væri í algeru uppnámi á eftir.