Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:42:17 (880)

1997-11-03 17:42:17# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst með ólíkindum hvernig nokkrir hv. þingmenn leitast við að drepa þessu máli á dreif og væna okkur sem stöndum að þessum frumvörpum um óvönduð vinnubrögð. Talað var um flumbrugang og jafnvel óheiðarleika og síðan hitt að við vildum svipta þau samtök sem eiga hlut að máli öllum tekjumöguleikum, að við ætlum að koma í veg fyrir að Slysavarnafélag Íslands eða Rauði krossinn, SÁÁ og Háskóli Íslands geti starfað. Að sjálfsögðu þarf að taka á tekjumöguleikum þessara samtaka, þessara þjóðþrifasamtaka og þessarar menningarstofnunar og uppeldisstofnunar og rannsóknastofnunar sem Háskóli Íslands er.

Við erum hins vegar að benda á í máli okkar að spilafíkn er að verða svo alvarlegt þjóðfélagsmein á Íslandi að á því ber að taka og að löggjafanum beri að taka á þeim málum. Síðan reyndi ég í máli mínu í upphafi að gera grein fyrir því hvers vegna ég teldi að tekjur af áfengis- og tóbakssölu annars vegar og af spilakössum hins vegar væru ekki sambærilegar. Ástæðuna sagði ég vera þá að það væri ekki á döfinni að banna sölu á áfengi og tóbaki. Það er reyndar komið á dagskrá í Bandaríkjunum að setja einhverjar skorður við sölu á tóbaki og strangari skorður en verið hefur, jafnvel bann, en þetta er ekki á döfinni þannig að þetta er ekki sambærilegt. Við erum hins vegar að tala um að setja bann við spilavítum á Íslandi. (Forseti hringir.) Það er það sem við erum að tala um og mér fyndist málið ekki betra þó að það væru einhverjir gróðapungar úti í bæ sem högnuðust á þessum veikleika og sjúkleika einstaklinga.