Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:51:36 (884)

1997-11-03 17:51:36# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hefur farið fram mjög gagnmerk umræða um vandamál sem er að einhverju leyti nýtt af nálinni og fjallar í huga mínum um fíkn. Reynsla okkar Íslendinga af fíkn er tiltölulega lítil. Við þekkjum tóbak, það eru aðeins nokkrir áratugir síðan við gerðum okkur grein fyrir skaðsemi tóbaks og ekki nema nokkur ár síðan raunverulega kom í ljós hver skaðsemi tóbaks er. Við þekkjum áfengi frá fornri tíð og áhrif þess á manninn hafa lengi þekkst á Íslandi og sérstaklega á einstaka einstaklinga. Við þekkjum eiturlyf og áhrif þeirra mjög lítið og eiginlega bara síðustu 10--20 árin og svo að sjálfsögðu frá reynslu annarra þjóða af umgengni við eiturlyf. Við þekkjum spilafíknina eiginlega ekki neitt. Þó höfum við heyrt, bara síðustu mánuðina, sögur af fólki sem er haldið þessari fíkn, sem ég persónulega þekkti ekki áður og hef ekki kynnst, sem er alveg óskapleg.

Það virðist vera að sumt fólk lendi í því að rústa algjörlega eigin fjármálum, eigin lífi, fjármálum fjölskyldunnar og lífi fjölskyldunnar allt í kringum sig. Þetta er hlutur sem við Íslendingar höfum ekki þekkt og þetta erum við að fjalla um hér. Vitaskuld er ákveðinn tvískinnungur í því að ríkið skuli vera að selja áfengi með annarri hendinni, hagnast á því og að lækna með hinni hendinni það fólk sem verður áfenginu að bráð. Að ríkið skuli vera að selja tóbak og græða á því með annarri hendinni og að lækna með hinni hendinni það fólk sem lendir í tóbaksfíkninni er náttúrlega ákveðinn tvískinnungur og við búum við það.

Varðandi spilakassana og þá fíkn sem þar myndast er það ekki komið í ljós enn þá, og ég hygg að það eigi eftir að koma í ljós í auknum mæli. Erlendar rannsóknir segja að 5--6% af fólki geti lent í því að verða fíklar, spilafíklar. Það slær mig og maður hugleiðir hvort ekki sé ástæða til þess að grípa til svipaðra aðgerða gagnvart spilafíkn og gagnvart t.d. eiturlyfjafíkn. Allt er þetta spurning um frelsi og bann, höft eða frelsi einstaklingsins. Ég er almennt hlynntur frelsi einstaklings en þó geri ég á því undantekningu þegar um er að ræða atriði eins og eiturlyf þar sem einstaklingurinn getur og mun líklega fara sér að voða. Það sama á við um spilafíknina að þar sýnist mér að fólk geti farið sér að voða.

Hér hefur komið fram er að ekki sé nægilega mikið eftirlit með því að börn sæki ekki í spilakassa, menn geri sér ekki almennilega grein fyrir hættunni. Í því sambandi bendi ég sérstaklega á að miklu stærri hætta felst t.d. í tölvuleikjum, sem margir hverjir eru byggðir upp á nákvæmlega sama hátt og spilakassar, og þar eru börnin alveg ofurseld tölvuleikjunum og ég held að það sé hlutur sem menn ættu að skoða líka.

Það er alveg sérdeilis ógeðfellt að við Íslendingar erum að fjármagna góð mál, æðstu menntastofnanir landsins og mörg góðgerðarsamtök, með þessum hætti. Að verið sé að auglýsa í sjónvarpi á kvöldin alls konar spilakassa og svo kemur einhver maður í sjónvarpið og segir að SÁÁ sé að taka upp lækningabraut fyrir þá sem verða fíklar af þessum sömu sökum, þ.e. þeir aðilar sem ætla að lækna eru um leið að auglýsa og hvetja til starfseminnar, þeir örva fíknina. Þetta er með þvílíkum ólíkindum og mér finnst þetta mikill tvískinnungur.

Ég skil alveg og felst á þau rök sem koma fram í frv. Hins vegar er verið að gera mjög hastarlega breytingu á stuttum tíma og það er rétt sem fram hefur komið að það gengur ekki svona. Það gengur ekki að segja að 1. jan. næstkomandi hætti þetta alveg. Hér hefði átt að vera þáltill. um að skoða þessi spilamál öllsömul frá rótum og kanna hvað eru miklar líkur á því að fólk verði spilafíklar, hvað miklar líkur á því að þessi góðu samtök séu að búa til spilasjúklinga, og breyta mildilegar, sjá fyrir nýjum tekjumöguleikum fyrir þessi samtök en klippa ekki allt í einu á. Ég held að það sé ljóðurinn á málinu.

Hins vegar tel ég mikilvægt að rætt sé um spilafíkn eins og aðra fíkn sem við hv. þm. verðum að taka á í þjóðfélaginu og ég tel þetta mjög þarft frv. að því leyti af hafa vakið umræðuna. En eins og ég benti á þá er þetta allt of hastarlegt. Ef það yrði samþykkt yrðu samtökin mjög illa stödd fjárhagslega og það held ég að sé engum til góðs. Það væri aftur á móti mikilvægt að ræða málin, fara í gegnum þau og þá ekki bara þessi samtök, ekki bara spilakassa heldur líka Happdrætti Háskólans, tölvuleiki o.s.frv. og athuga hvort ástæða sé til að gera eitthvað í þessum málum til frambúðar.