Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:58:08 (885)

1997-11-03 17:58:08# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:58]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Þar sem ég er einn af flutningsmönnum þessara frumvarpa vil ég leggja örfá orð í belg.

Stundum er það jafnvel talinn ljóður á störfum Alþingis hversu sjaldan alþm. flytja frv. Í frumvörpum kemur fram afdráttarlaus skoðun. Frumvörp eru sterkasta form þingsins. Þess vegna tel ég að reynt sé að snúa út úr þeirri hugsun sem frumvörpunum fylgir.

Hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum og reynir að stilla þeim upp við vegg sem flytja varnaðarorð og leggja til að lög verði felld úr gildi, að þeir séu óvinir númer eitt stórra hreyfinga sem hafa unnið merkilegt starf í landinu á síðustu árum. Þannig geta þingmenn ekki sillt umræðunni upp. Auðvitað virðum við sem flytjum frv. og viðurkennum að Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Samtök áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann, Slysavarnafélag Íslands eru allt göfug og góð samtök. Án þeirra megum við ekki vera og viljum ekki vera og virðum þeirra mikla starf í gegnum áratugi. Við virðum líka Háskóla Íslands og teljum hann mikilvægan.

En það sem við erum að vekja athygli á með þessu máli og viljum fá fram skoðun þingsins er spurningin hvernig þessi mál hafa þróast á stuttum tíma í okkar íslenska þjóðfélagi.

Íslenska þjóðin er ung og hún er fljót að grípa nýjungarnar. Það er rétt sem hv. 1. flm. hefur rakið að því miður hafa margar hörmungar leitt af þessari nýju íþrótt Íslendinga. Þess vegna er afdráttarlaus skoðun mín að það á að vera verkefni Alþingis í framhaldi af þessum frumvörpum og ég treysti allshn. fullkomlega til þess að fara yfir stöðu þessara mála og það hlýtur hún að gera. Þingið vinnur nefnilega með ákveðnum hætti og menn þurfa ekkert að snúa út úr og reyna að setja menn á sakamannabekk.

Þingið sendir frumvörp til umsagnar og nefndirnar skila ekki af sér frumvörpunum til baka nema meiri hluti sé fyrir þeim og ég treysti því fólki sem situr í allshn. til þess að fara yfir þessi mál. Það kann að vera að fleiri en ég viti það að framkvæmd þessara mála og staðsetning þessara kassa eru með þeim hætti að almenningur tekur kannski í ríkari mæli undir með okkur flutningsmönnum en þingið gerir sér grein fyrir. Skyldi ekki spilafíknin vera einn hörmulegasti sjúkdómur sem maður sér þegar maður fer út í Evrópu? Hvert fer gamla fólkið þar með lífeyrinn sinn og eyðir honum á einni klukkustund? Þetta er eitt stærsta vandamál í mörgum löndum. Þess vegna tel ég að við þurfum að skipuleggja þetta.

Menn eru að rugla saman málum og nefna sölu á áfengi o.s.frv. Hvar eru sumir kassarnir staðsettir? Þeir eru staðsettir inni á áfengisbörum og ég hef oft orðið vitni að því að maður sem þar hefur því miður drukkið frá sér ráð og rænu er að skaða fjölskyldu sína og eyða fé í spilakassa og veit ekki af því fyrr en daginn eftir. (Dómsmrh.: Þingmaðurinn hefur vonandi ekki átt í því.) Hæstv. dómsmrh. getur þóst hafa efni á því að hafa gaman af þessu máli. Ég get tekið undir það með honum að ég er ekki þar oft staddur en ég hygg að það hafi hent hæstv. dómsmrh. að sjá þessa neyð og ég vænti þess að hans mannlega hjarta sé ekki með þeim hætti undir þessari umræðu að hann telji sér það leik að gera grín að málflutninginum. Þetta er grafalvarlegt mál. Frá hverju voru þeir að segja á SÁÁ? Að einhverjir tugir manna (GHelg: Hundruð.) eða hundruð manna kæmu orðið árlega í meðferð vegna þessa sjúkdóms. Þegar flutningsmenn skoða þessi frumvörp og eru að semja þau kemur í ljós að hæstv. dómsmrh. hefur ekki sett allar þær reglugerðir sem eiga að fylgja lögunum og hér er fullyrt enga reglugerð. Fyrir utan hitt að eftirlitið er í molum og vitað er að börn og unglingar ganga því miður sums staðar í þessa kassa.

Ég treysti dómsmrh. ágætlega í mörgum málum þó ég tali hart til hans í þessari umræðu og tel að hann geti aðstoðað þingið við að endurskoða bæði framkvæmdina og staðsetningu kassanna. Ég vona að frumvörpin verði til þess að farið verði öðruvísi með þessi mál í framtíðinni og að allshn. skili frá sér þessu máli í þeim búningi, það getur verið fyrsta stigið þegar jafnafdráttarlaust frv. kemur fram. Það hvarflar kannski ekki að mér að það verði samþykkt eins og það kemur fram því það er hvorki vilji minn né flutningsmanna að þessi miklu samtök sem vinna gott starf standi uppi tekjulaus. En fyrsta verkefni þingsins gæti verið krafa um að milliþinganefnd alþingismanna ynni fram að næstu löggjafarsamkomu að tillögum. Verður ekki Alþingi stundum að beita eftirlitsþætti sínum og nýrri stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu? Ég teldi það eðlilegt framhald. Ég vil ekki skaða þessi miklu samtök og það getur vel verið að það séu til aðrar leiðir til að finna þeim tekjustofna. En mér gremst að hlusta á í umræðunni eins og oft vill verða í þinginu að þeir menn sem hafa haft fyrir því að semja frumvörp og koma fram með afdráttarlausar skoðanir eru gerðir að óvinum einhverra fjöldahreyfinga. Þá fara menn jafnvel að tala um að þingsályktunartillögur hefðu verið betri sem er auðvitað miklu lægra form í þinginu á málflutningi. Ég stend því við það að ég tel mikilvægt að þessi frumvörp bæði fái þinglega meðferð og ég er sannfærður um að þau munu þó skila því að þessi mál verða tekin til umræðu í íslensku þjóðfélagi með nýjum hætti. Ég ætla að vona að löggjafarsamkoma Íslendinga verði leiðandi í þeirri umræðu, að hún verði ekki alltaf eftir í hinum stóru málum og verði að fá tilskipanir utan úr samfélaginu. Þetta eru mín orð hér við þessa umræðu, hæstv. forseti.

Ég vil þó segja eitt að lokum af því að menn stillta alltaf mönnum upp með þessum hætti. Ég man eftir því þegar ég, nýr þingmaður fyrir 10 árum, byrjaði að gagnrýna lífeyrissjóðakerfið var mér stillt upp sem óvini alþýðunnar númer eitt af því að ég taldi mikilvægt að lífeyrissjóðirnir sem voru stærstu peningastofnanir Íslendinga byggju við aðhald og væru reknir með öðrum hætti og um þá giltu lög. Það tók mörg ár að ná því fram að menn færu að veita þessum miklu sjóðum aðhald og færu að endurskipuleggja þá. Ég hræðist það ekkert þó einhverjir menn hafi í hótunum við mig og telji mig óvin þessara miklu hreyfinga. En þessar hreyfingar, sem eru núna að safna inn í gegnum þetta 10 milljörðum á ári hverju, verða að skilja að það verður að vera opinbert eftirlit á þeim og þær verða líka að skilja það að löggjafarsamkomunni er ekki sama hvernig framkvæmdin er og hvar staðsetningin er.