Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:09:24 (886)

1997-11-03 18:09:24# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:09]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það getur eflaust verið gott að þingmenn flytji frv. en það á ekki að flytja frumvörp bara til þess að flytja þau. Það þurfa að vera einhverjar efnislegar forsendur til þess að það sé gert. Ef ég vissi ekki betur hefði ég talið að hv. málflytjendur þessara tveggja mála sem eru til umræðu gerðu sér enga hugmynd um það í hverju starf viðkomandi samtaka er fólgið.

Hv. síðasti ræðumaður sagði að ruglað væri saman málum talað væri um sölu á áfengi og tóbaki í samhengi við þessi tvö frumvörp. Það er eflaust sjónarmið út af fyrir sig en ég gæti best trúað því að hv. flutningsmenn séu líka að rugla saman málum þegar þeir flytja og tala fyrir í samhengi annars vegar breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands um spilakassana og hins vegar um söfnunarkassa líknarfélaganna þriggja því það er gríðarlegur munur á þessum spilatækjum, sérstaklega hvað varðar vinningsupphæðir og vinningsmöguleika og ég held að það sé mjög vafasamt að líkja þeim saman. En hvort sem er þá væri stórhættulegt ef fótunum væri kippt undan þessari starfsemi í einu vetfangi eins og frumvörpin gera ráð fyrir þó að ég efist ekkert um það að jafnvel þó vilji væri fyrir hendi til þess að breyta þessu á einhvern grundvallarhátt hefði Alþingi vit á því að breyta dagsetningum og hvernig staðið væri að breytingunni.

Ég sé hins vegar ekki að þau rök sem hafa verið lögð fram standi undir þeim tillögum sem koma fram í frumvörpunum. Mér þykir beinlínis sorglegt að lesa það í greinargerð þar sem verið er að fjalla um starfsemi þeirra fjögurra líknarsamstaka sem áður hafa verið nefnd að tala um starfsemi þeirra sem fáránlega. Mér finnst algerlega óskiljanlegt þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um þessa starfsemi sem glæpastarfsemi. Ég held að hv. þm. hljóti að hafa mjög sérstakan skilning á því sem er glæpastarfsemi. En við ættum kannski að vera fegin því að hann hefur ekki kynnst glæpastarfsemi betur en það að hann velur þessa samlíkingu til þess að bera saman við starfsemi þessara samtaka. (Gripið fram í.) Það er alveg sama hvar sumir menn eru staddir í heiminum, þeir eru alltaf í vernduðu umhverfi.

Þrátt fyrir það að ég vilji ekki líkja þessu tvennu saman sem er til umræðu er mér stórlega til efs að það yrði þjóðfélagi okkar á nokkurn hátt til batnaðar ef Háskóla Íslands yrði bannað að reka spilakassa sína. Ég held að við höfum reynsluna fyrir því að ef starfsemi eins og spilastarfsemi er bönnuð, starfsemi sem fólk hefur áhuga á að sækja í, þá finnur hún einfaldlega eiginn farveg og ekki eru mörg ár síðan lokað var ólöglegum spilavítum. En ég minnist þess ekki að síðan spilakassar háskólans hófu að vera til brúks á hinum ýmsu stöðum í landinu eða jafnvel í borginni, þar sem þeir eru nú flestir hafi verið lokað ólöglegu spilavíti. Ég held að það sé út af fyrir sig betra að starfsemin sé háð lögum og reglum og það sé fylgst með henni en hún sé knúin til þess að vera neðan jarðar.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að lýsa því hvað mundi gerast hjá þessum líknarsamtökum ef fjáröflun þeirra yrði hætt 1. jan. 1998 eins og frumvörpin gera ráð fyrir. Sjálfsagt verða nógir til þess að leiða annars vegar hv. flutningsmönnum og nefndinni það fyrir sjónir hvað mundi gerast. Hins vegar er hollt fyrir okkur að íhuga í þessu samhengi hversu mikilvæg þessi samtök eru í þjóðfélagi okkar, hversu gíðarlega mikið starf er unnið í sjálfboðavinnu, starf sem þjóðfélagið þarf nánast ekki að leggja fram eyri til. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að íhuga hvað ríkið þyrfti að leggja fram ef það ætti sjálft að standa undir þessari starfsemi. Það eru miklu, miklu hærri upphæðir en þær sem fram koma í greinargerðinni um tekjurnar sem þessi líknarfélög hafa af starfseminni. Ég er hræddur um það að hv. flutningsmenn hafi ekki íhugað þetta nægilega vel og ef þeir hafa gert það hafa þeir hvorki áhyggjur af fjárhag þessara samtaka né neinar verulegar áhyggjur af fjárhag ríkissjóðs. Samstarf við þessi samtök fyrir ríkissjóð eru einungis á einn veg, þau eru ríkissjóði og þjóðfélaginu til hagsbóta og við skulum hafa það ofarlega í huga.