Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:19:54 (889)

1997-11-03 18:19:54# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður fer að furða sig á því hvers vegna þessi umræða skuli yfirleitt leyfð. Spilavíti og það að hagnast á spilafíkn, sjúklegri spilafíkn fólks, er að mínu mati glæpastarfsemi. Ég hika ekki við að nota það orð. Mér finnst það umhugsunarvert þegar þessi virtu samtök og Háskóli Íslands eru fjármögnuð á spilafíkn fólks. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur. Mér finnst það ekki síður alvarlegt þegar hv. þm. stíga hér í ræðustól og hafa í frammi þann málflutning sem hv. þm. Árni M. Mathiesen gerði áðan. Hann vill meina þingmönnum að vara við því þjóðfélagsmeini sem hér hefur sett einstaklinga og fjölskyldur í rúst og gera allan þeirra málflutning tortryggilegan.

Hann sagði reyndar líka áðan að þjóðfélagið greiddi ekki einn eyri til þessara samtaka og var þá að vitna til þeirra peninga sem kæmu upp úr spilakössunum. Ég er hins vegar á því máli að þjóðfélaginu blæði vegna þessarar meinsemdar því að þetta skaðar allt þjóðfélagið, þetta skaðar einstaklingana. Og að sjálfsögðu koma þessir einstaklingar og eiga eftir að koma við sögu í ýmsum stofnunum samfélagsins og eru þeim þungur baggi, auk þess sem þetta skaðar einstaklingana og fjölskyldurnar.