Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:22:04 (890)

1997-11-03 18:22:04# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:22]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson veltir því fyrir sér hvers vegna þessi umræða skuli leyfð eða hvers vegna hún er ekki bönnuð. Það er einmitt í anda þess hugsunarháttar sem gætir hjá honum bæði í málflutningi hans og í tillöguflutningi hér að banna hlutina. Það hefur aldrei hvarflað að mér að þessi umræða yrði bönnuð. Aldrei nokkurn tímann. Það hefur aldrei hvarflað að mér að þingmenn mættu ekki flytja þau mál sem standa hjarta þeirra næst. En það sem ég var að tala um í upphafserindi mínu um frumvarpsflutning þingmanna var að það væri ekki ástæða til að fagna frv. sérstaklega nema þau væru til þess að gera eitthvert gagn. En það er nákvæmlega það sem þingmaðurinn sagði og hann kom nákvæmlega upp um sig þegar hann var að velta því fyrir sér hvort ekki hefði átt að banna umræðuna. Þar sýndi hann dýpst inn í sinn hjartastað. Það eru boðin og bönnin sem hann vill láta ganga yfir okkur. (ÖJ: Þvílíkur útúrsnúningur.) Hann vill láta reka starfsemina neðan jarðar frekar en hafa hana uppi á borðinu þar sem lög og reglur ná utan um hana.