Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 19:35:14 (896)

1997-11-03 19:35:14# 122. lþ. 17.17 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[19:35]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Vegna þess að mér vannst ekki tími til að koma að öllum þeim atriðum sem ég taldi nauðsynlegt að benda á við 1. umr. í máli mínu áðan, þá vil ég nú nefna nokkur til viðbótar.

Ef ég lít yfir málið í heild tel ég að aðstæður kalli ekki á framlagningu frv. af þessu tagi vegna þess að aflaheimildir séu í raun að safnast á of fáar hendur og fylgigögn frv. sýna fram á það ótvírætt að svo er ekki.

Í öðru lagi held ég að frv. muni hafa hugsanlega í framtíðinni og kannski í náinni framtíð skaðleg áhrif með því að beina hagræðingu fyrirtækja frá sérhæfingu í aðrar áttir án þess að sú hagræðing byggist á sérstöðu fyrirtækjanna og þeirri þekkingu sem þar, heldur á löggjafanum. Ég vil einnig taka það fram sérstaklega að nauðsynlegt er að breyta ákvæðum um heildarverðmæti aflahlutdeildar.

Mér finnst að í umræðunni hafi komið fram nokkuð athyglisvert sjónarmið sem beinist í raun og veru gegn stærstu fyrirtækjum í sjávarútvegi á Íslandi sem eru þó ekki stærri en hér hefur verið nefnt. Það hefur verið bent á að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins réði hugsanlega yfir um 7% af aflaverðmætum í þorskígildistonnum. Stærra er það nú ekki. Ef þessi fyrirtæki eru orðin það ráðandi á markaðnum að ástæða er til að grípa til sérstakra aðgerða til að hemja vöxt þeirra, eins og hér kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þá er ekki ástæðulaust að biðja þingmenn sem hafa þessar skoðanir að líta í kringum sig og velta því fyrir sér hvort ekki er þá enn brýnni ástæða til þess að grípa til slíkrar löggjafar þegar um er að ræða fyrirtæki sem ráða kannski 60% markaðarins, 60% veltunnar, og eru ekki smá á íslenskan mælikvarða í veltutölum.

Ég held hins vegar að menn ættu um leið og þeir beina spjótum sínum að stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum á Íslandi að velta því fyrir sér hvaða áhrif það getur haft fyrir íslenskt þjóðfélag að setja miklar takmarkanir á þróun þessara fyrirtækja. Sum þessara fyrirtækja eru fiskvinnslufyrirtæki og eru það raunar flest. Fiskvinnsla á nú mjög undir högg að sækja og eina svar þessara fyrirtækja er að auka sérhæfni sína og ná fram meiri gæðum. Að vissu leyti er þarna verið að hefta svigrúm fyrirtækjanna til þess að bregðast við þessum brýna vanda.

Ég vil einnig taka það fram að höft sem sett eru á stærstu útgerðarfyrirtækin geta verið hindranir á þeirri leið sem Íslendingar hafa verið að hasla sér völl á og á ég þá við sókn Íslendinga sem hefur verið kölluð útrás þeirra inn á svið útgerðar í öðrum löndum. Íslendingar hafa sótt inn á alþjóðlegan markað á sviði hráefnisöflunar. Þeir veiða nú talsverðan hluta af kvóta Þýskalands og Bretlands. Þeir hafa verið að hasla sér völl á sviði matvælaframleiðslu á alþjóðlegum markaði og á sviði matvörudreifingar. Og það er ekki nóg með það að Íslendingar hafi gerst umsvifamiklir á þessu sviði og í mörgum tilfellum margfaldað verðmætin sem hafa skapast hér á landi við þessa útrás, heldur ber að geta þess alveg sérstaklega að í kjölfar þessarar útrásar hafa fylgt aukin umsvif fyrirtækja sem framleiða tæknibúnað fyrir öll þessi atvinnusvið, þ.e. fyrir hráefnisöflunina, fyrir útgerðina og tæknibúnað fyrir matvælaframleiðsluna. Talsverður hluti af íslensku atvinnulífi stendur því í þakkarskuld við útrás útgerðarinnar og byggir sín auknu umsvif og sína bættu stöðu í dag á þessari útrás. Og það er hætta á því að löggjöf af því tagi sem hér er um að ræða muni í framtíðinni skerða möguleika bæði þeirra fyrirtækja sem starfa beint við útgerð og fiskvinnslu og matvörudreifingu og einnig hinna sem þjónusta þetta svið atvinnulífsins, þ.e. að svigrúm þeirra verði skert í framtíðinni og alþjóðleg umsvif okkar á þessu sviði verði þar af leiðandi eitthvað takmörkuð.

Þetta vildi ég að kæmi fram við 1. umr. Ég tel að hér sé verið að leggja fram frv. á nokkuð hæpnum forsendum sem geti haft óþarflega takmarkandi áhrif á mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.