Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:00:20 (905)

1997-11-04 14:00:20# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:00]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Sú uppákoma sem orðið hefur í verðlagsmálum Pósts og síma þarf satt að segja engum að koma á óvart. Hún er eðlileg afleiðing af þeirri fráleitu ákvörðun að einkavæða fyrirtæki sem býr við einokunaraðstöðu. Alþingi hefur glatað þeirri aðstöðu sem það hafði til að hafa eftirlit með því fyrirtæki og verðhækkunum þess í gegnum fjárlagaundirbúninginn. Á þessu sviði er og verður áfram um mörg ár fákeppni ríkjandi og engin raunveruleg samkeppni. En það er ekkert virkt aðhald til varnar neytendum. Það er kjarni málsins. Samkvæmt áætlunum Pósts og síma hafa áform fyrirtækisins miðað við að ná inn í tekjum af neytendum, 2 milljörðum umfram útgjöld á þessu ári. Þessi hóflausa arðsvon felur í sér 20--30 þús. kr. aukaskatt á hverja meðalfjölskyldu í landinu. Það segir auðvitað miklu meira um kjarna þessa máls en allt það bólgna talnaflóð sem flætt hefur yfir landslýð á undanförnum dögum. Þar að auki hafa forsvarsmenn Pósts og síma neitað að gefa upplýsingar um forsendur þessarar hækkunar eins og þeir hafa líka neitað að gefa upplýsingar um launakjör æðstu embættismanna fyrirtækisins. Þetta er einmitt sá hroki og yfirgangur gagnvart neytendum sem við megum vænta hverju sinni þegar þjónustufyrirtæki ríkisins í einokunaraðstöðu eru einkavædd.

Það versta við þetta mál var að minni hyggju það þegar reynt var að fela þessa gífurlegu hækkun á bak við þann sjálfsagða og jákvæða áfanga sem fólst í því að allir landsmenn ættu að sitja við sama borð. Jöfnun símgjalda var auðvitað löngu tímabær. Eftir tilkomu nýjustu tækni verður ekki sagt með neinum rökum að samtal milli Raufarhafnar og Reykjavíkur sé í eðli sínu dýrara en samtal milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þetta er reyndar gamalt baráttumál sem við alþýðubandalagsmenn höfum æðioft flutt á Alþingi. Fyrir fimm árum fluttum við frv. um jöfnun verðlags og fluttum það síðan mjög oft í kjölfarið. Þar var lagt til að unnið yrði að jöfnun vöruverðs í landinu, að raforkuverð í heildsölu og smásölu yrði jafnað því auðvitað er ekkert réttlæti í því að rafmagn frá sömu orkuveitunum sé selt á mismunandi verði til heimilanna. Í þriðja lagi var lagt til að landið yrði gert að einu gjaldsvæði óháð vegalengdum milli notenda. Lengi vel var tillögum okkar lítt sinnt en í tengslum við breytinguna á Pósti og síma í hlutafélag og í tengslum við fjarskiptalögin fyrir rúmu einu ári komst málið á dagskrá. Þá fluttum við stjórnarandstæðingar tillögu um jöfnun símgjalda sem stjórnarmeirihlutinn tók seinna upp og gerði að sinni tillögu og þannig náði þetta sjálfsagða réttlætismál fram að ganga. Auðvitað ber Alþingi alla ábyrgð á því út af fyrir sig. En það óraði engan fyrir því að síðan yrði þessi uppstokkun hagnýtt til að knýja fram þá gífurlegu hækkun sem Póstur og sími boðaði í seinustu viku og aðeins að litlum hluta átti rót að rekja til verðjöfnunar þótt annað væri gefið í skyn í fyrstu. Nei, þetta mál sýnir okkur að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn eru á villigötum í málefnum Pósts og síma.

Því miður er þetta ekki eina dæmið um að Póstur og sími sé að níðast á viðskiptavinum sínum þessa dagana. Íslensk blaðaútgáfa stynur undan ofurþunga gífurlegra hækkana sem hafa orðið á póstburðargjöldum á seinustu vikum og flest bendir til að þjónusta póstsins muni einnig versna víða í dreifbýli úti á landi frá því sem nú er. Ég segi því einungis að lokum: Þetta er hryggileg þróun sem stjórnarflokkarnir báðir bera fulla ábyrgð á með stefnu sinni og stefnuleysi.