Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:09:10 (907)

1997-11-04 14:09:10# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við þá ræðu sem hæstv. samgrh. flutti áðan og að hann skuli bjóða þingheimi upp á annan eins skæting þegar við erum að ræða þetta alvarlega mál. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Við erum að ræða eitthvert alvarlegasta mál sem upp hefur komið lengi, dæmi um það þegar almenningur rís upp gegn ranglátum ákvörðunum. Hann bað sjálfur um að umræðunni yrði frestað þangað til í dag vegna þess hve málið væri stórt og alvarlegt en það var harla lítið um svör eða alvarlega nálgun ráðherrans á málinu. Skýringuna á því að hann bað um frestun á málinu er að finna í Morgunblaðinu í dag. Þar er formaður stjórnar Pósts og síma mættur til að biðjast afsökunar og lýsa því yfir að stofnunin hafi nú sýnt mikinn hroka í sinni framgöngu. Jafnframt kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að sú mikla hækkun sem boðuð var er nú orðin að 4% lækkun á meðalsímreikningum eftir því sem fram kom í fréttunum. Þetta leiðir hugann að því hvað felst í öllum þessum meðaltölum. Ég get ekki annað en fagnað því að formaður stjórnar Pósts og síma skuli hafa lagt fram þær upplýsingar sem birtast á síðum Morgunblaðsins. En það vantar þó ýmislegt enn. Þær forsendur vantar sem stofnunin gefur sér og upplýsingar vantar um það á hverjum þessar breytingar sem á að gera lenda. Nú tala ég út frá því, herra forseti, að búið er að boða breytingar og ný tillaga verður lögð fram á stjórnarfundi á föstudaginn. En við höfum alveg jafnlitlar upplýsingar og áður um útfærsluna og á hverjum þetta lendir. Þar hlýt ég fyrst og fremst að nefna aldraða, fólk, sem notar símann sem öryggistæki. Við megum ekki gleyma því að síminn í heild er eitt af mikilvægustu öryggistækjum þjóðarinnar. Það hlýtur að vekja þær spurningar hvert stefni í þessum málum. Samkeppni er boðuð en ljóst er að eitthvað vantar í hana. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ragnars Arnalds hefur reynslan frá ýmsum þjóðum, sem hafa verið að gera breytingar á símkerfinu og hafa verið að einkavæða póst- og símkerfi sinna landa --- að vísu er afar lítið um að póstþjónustan hafi verið einkavædd --- sýnt að þjónustan hefur hækkað og þau svæði sem eru afskekktust lenda í mestum erfiðleikum. Það er engin samkeppni um að þjóna einhverjum afskekktum eyjum eða afdölum.

Í framhaldi af því hlýt ég að spyrja hæstv. samgrh. um þau orð sem fram koma í viðtalinu við formann stjórnar Pósts og síma þar sem hann boðar það sem auðvitað mátti vænta, að það hljóti að vera fram undan að selja fyrirtækið á almennum hlutabréfamarkaði. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Hann teldi því að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær ríkið seldi fyrirtækið og hann teldi vel koma til greina að gera það í áföngum. Það væri ekki ótrúlegt að verðmæti fyrirtækisins alls gæti verið á bilinu 15--25 milljarðar króna.``

Við erum ekki að tala um neitt smáfyrirtæki. Við erum að tala um þjónustustofnun sem á að sinna öllum landsmönnum og sinna þeim jafnt. Tíma mínum er alveg að ljúka, hæstv. forseti, en ég hlýt að nefna þá umræðu sem orðið hefur um landið sem eitt gjaldsvæði og auðvitað eiga allir landsmenn að sitja við sama borð. En mér finnst samt, eftir að hafa kynnt mér þau gögn sem ég hef séð, að stofnunin hafi ýmislegt til síns máls þegar verið er að huga að breytingum og kröfum um það að kostnaðurinn sé sem næstur raunkostnaði. Þá skulum við minnast þess að umboðsmaður Alþingis hefur gefið út álit þess efnis að stofnunum beri að miða gjöld sín við raunkostnað. Þá spyr maður aftur hvort sá mikli gróði, sá mikli hagnaður, sem Póstur og sími hefur sýnt, sé eðlilegur? Er eðlilegt að skattleggja þjóðina með þessum hætti? Er ekki ýmislegt sem þarf að skoða í þessu máli, hæstv. ráðherra, og eigum við ekki að ræða það af alvöru?