Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:27:55 (912)

1997-11-04 14:27:55# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þetta mál raunverulega? Það snýst um að einokunarfyrirtæki í eigu landsmanna er að hækka sína gjaldskrá. Það er að ákveða hvað það ætlar að hafa í hagnað og vegna þessa snerist landslýður öndverður við og vildi fá stjórn Pósts og síma til þess að breyta þessari ákvörðun. Ég held að niðurlæging hæstv. ráðherra hafi verið alger í þessu máli eins og hann flutti það áðan og að það eina sem kannski hafi vantað væri að hann flytti góða stöku.

Það er ástæðulaust að rekja frekar en gert hefur verið hvernig staðið hefur verið að þessu, en ég vil vekja sérstaka athygli á því að frá því að Samkeppnisstofnun kom til sögunnar, hefur hún nánast verið með þessa stofnun í fóstri. Samkeppnisstofnun er búin að fjalla tíu sinnum um Póst og síma. Samkeppnisstofnun sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna neytenda er búin að fjalla tíu sinnum um Póst og síma á meðan ekkert fyrirtæki hefur verið tekið til skoðunar nema einu sinni. Þetta segir meira en mörg orð um hvers konar hroki og yfirgangur virðist ríkja innan veggja þessarar stofnunar. Þetta hefði verið orðað þannig í refsirétti að þarna væri einbeittur og harður brotavilji.

Ef menn fletta þessum úrskurðum og álitum, þá má finna í þeim orð eins og ,,misnotkun á einkaleyfisþætti``, ,,viðskiptaþvinganir``, ,,misbeiting á markaðsráðandi stöðu``, ,,skaðleg áhrif á samkeppnina``, ,,brot á jafnræðisreglu, ,,framkvæmd tilviljunarkennd og leiðir til mismununar``, ,,takmarkað aðgang keppinauta að póstmarkaði umfram það sem einkaréttarákvæðinu er ætlað að gera``. Og síðast en ekki síst hefur þetta gríðarleg áhrif á ímynd fyrirtækisins. Mér þætti fróðlegt þegar að því kemur að þetta fyrirtæki verður selt, sem mér þykir mjög líklegt, að þá yrði metið hvaða tjón hæstv. samgrh. hefur valdið ímynd þessa fyrirtækis. Það er sjálfsagt metið í milljörðum. Það þykir mér líklegt. Það yrði gríðarlega alvarlegur hlutur að þessi flumbrugangur í samgrh. kosti ríkissjóð hugsanlega milljarða vegna þess að hann hefur eyðilagt ímynd fyrirtækisins. Það hefur litla umræðu fengið en ég er dálítið hræddur um að þetta eigi eftir að koma á daginn og kannski er þetta allt saman engin tilviljun. Kannski er auðveldara að einkavinavæða fyrirtækið í kjölfar þess að það er búið að eyðileggja ímynd þess. Það er þá minna virði á markaði.

Ég get þó ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að nefna að um það hefur verið talað að reyna að byggja upp atvinnuvegi á landsbyggðinni, einkanlega tölvuþjónustu. Ég vil því taka dæmi um kostnað sem tölvufyrirtæki úti á landi þurfa að greiða vegna aðgangs að burðarlínu Pósts og síma. Sem dæmi má nefna að tölvufyrirtæki í Reykjavík greiðir fyrir slíka línu ársfjórðungslega 40 þúsund, á Akranesi þarf það að borga 200 þús., í Vestmannaeyjum 350 þús., á Akueyri 550 þús. og yfir 700 þús. í Neskaupstað. Þetta er innlegg hæstv. samgrh. í uppbyggingu á tölvuþjónustu á landsbyggðinni.